Sindri Sindrason, fyrrverandi forstjóri CRI og Pharmaco, var úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 9. maí 2019. Tæplega 4,8 milljónir króna greiddust upp í almennar kröfur með úthlutunargerð en ekkert fékkst upp í eftirstæðar kröfur. Lýstar kröfur námu 118 milljónum króna. Skiptum á búinu lauk þann 20. desember síðastliðinn, samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Sindri vildi lítið tjá sig um málið en benti á að kröfurnar samanstæðu aðallega af ábyrgðarkröfum vegna fyrirtækja sem hann kom að.

Viðskiptablaðið sagði á síðasta ári frá því að Sindri, sem gegndi á árum áður stjórnarformennsku hjá Eimskipi og Actavis, var sýknaður af ákæru um skattalagabroti og peningaþvætti í Héraðsdómi Reykjaness í apríl 2020. Sindri var upphaflega ákærður fyrir að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum fyrir tekjuárin 2010-2014 með því að hafa ekki talið fram með fullnægjandi hætti tæplega 122 milljónir króna greiðslur frá tveimur félögum, annars vegar hinu danska Larsen Danish Seafood A/S og þýska dótturfélagi þess Larsen Danish Seafood GmbH.

Sjá einnig: Sýknaður af ákæru um skattalagabrot

Sindri mótmælti þessara túlkun og taldi að líta bæri á greiðslurnar sem greiðslur upp í kröfur sem hann átti á félögin tvö vegna tiltekinna útgjalda sem hann hafði staðið straum af. Þá væru þarna einnig á ferð þjónustutekjur á grundvelli framsals Sindra á réttindum samkvæmt þjónustusamningi til félags í eigin eigu.

Að mati Héraðsdóms gengu skýringar á greiðslum til einkahlutafélags hans „ekki upp að öllu leyti“ en þó ekki svo haldlausar að til sakfellingar kæmi.