Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru með lang mest fylgi samkvæmt nýrri könnun Zenter rannsókna. Aftur á móti myndi Viðreisn ekki ná manni inn á þing samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Hún er sú fyrsta sem hefur verið gerð opinber eftir að tilkynnt var um stjórnarslit.

Miðað við 95% öryggisbil er ekki marktækur munur á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna — en fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 26,4%. Fylgi Vinstri grænna mælist 22,8% samkvæmt könnun Zenter. Píratar tapa fylgi ef miðað er við úrslit kosninganna í fyrra en í könnuninni, mælast þeir með 12,5% fylgi, samanborið við 14,5% í kosningunum. Framsókn mælist með 10,5% fylgi — sem er minna fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum í fyrra.

Aftur á móti fær Flokkur fólksins 9,6% fylgi, borið saman við 3,5% fylgi í kosningunum. Samfylkingin mælist með 9% fylgi og Björt framtíð með 5,6%. Viðreisn mælist einungis með 2,7% fylgi, en flokkurinn fékk 10,5% atkvæða í Alþingiskosningunum 2016.

Í rannsókninni voru þátttakendur einnig spurðir: „Hversu sammála eða ósammála ertu því að boða verði til kosninga sem fyrst?“. Samkvæmt niðurstöðunum eru 68,5% Íslendinga sammála og einungis 14,0% ósammála. 10,6% eru hvorki sammála né ósammála og 6,8% tóku ekki afstöðu. Alls svöruðu 956 einstaklingar.

Zenter könnun
Zenter könnun