Samkvæmt könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins því austar sem farið er í borginni. Þannig má segja að í Grafarvogi og Grafarholti og Kjalarnesi séu höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins í borginni en þar mælist fylgi flokksins ofan við 40%.

Að sama skapi virðist fylgi Samfylkingarinnar vera sterkara því vestara sem farið er í borginni. Þannig gæti Vestur- og Miðbær (póstnúmer 101) talist höfuðvígi flokksins þar sem fylgi flokksins mælist rétt um 40%. Þá eru Vinstri græn einnig sterk í Vesturbænum (póstnúmeri 107) með um 25% fylgi samkvæmt könnuninni.

Athygli vekur að Píratar mælast nokkuð sterkir í Árbænum en þar mælist fylgi flokksins um 25%.

Í heildina mældist Samfylkingin með 25,7% fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn með 29,1% fylgi, Píratar með 13,3% og Vinstri Græn sömuleiðis með 13,3%. Viðreisn mælist með 6,4%.

Könnun Gallup var netkönnun, sem gerð var dagana 4. til 31. janúar. Spurt var: Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa/líklegast kjósa? Úrtakið var 2.021 Reykvíkingur, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup. Fjöldi svarenda var 1.081 og þátttökuhlutfallið 53,5%.