Fjármálaeftirlitið hefur tvívegis sent frá sér tilkynningu nýlega í tengslum við orðræðu og aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar í málefnum lífeyrissjóðanna, þar sem minnt hefur verið á að samkvæmt lögum um lífeyrissjóði beri stjórnum þeirra að hafa hagsmuni sjóðsfélaga í öndvegi.

Unnur Gunnardóttir forstjóri segir eftirlitið hafa leitast við að styðja stjórnarmenn í því að fara eftir sinni samvisku og ástunda góð vinnubrögð, eins og lög segja til um, en ekki að láta undan þrýstingi frá hagsmunaaðilum.

Hún segir þá stjórnarmenn sem verkalýðsfélög tilnefna ekki sitja í umboði þeirra sem slíkra, heldur hafi þessu verið komið þannig fyrir að sjóðsfélagar veiti í raun verkalýðsfélögum umboð til að velja stjórnarmenn fyrir sína hönd. Félögin megi ekki gleyma því hvers vegna þeim er treyst fyrir því að tilnefna stjórnarmenn.

Jafnframt veltir hún upp þeirri spurningu hvort ástæða sé til að breyta því kerfi að aðilar vinnumarkaðarins tilnefni stjórnir lífeyrissjóða. „Er ekki kominn tími til þess að hugsa þetta svolítið upp á nýtt? Mér finnst stundum að aðilar á vinnumarkaði telji sig hafa svo mikið tilkall til lífeyrissjóðanna af því að þeir eru á vissan hátt „guðfeður“ kerfisins. Skýringarnar eru sögulegar. Lífeyriskerfið varð til í kjarasamningum fyrir réttum fimmtíu árum. Þetta er svo mikill hluti af lífskjörum á Íslandi.“

Unnur segir samþjöppun valds í stjórnun lífeyrissjóðanna almennt óæskilega, óháð því hver eigi í hlut. Eins og staðan sé í dag séu aðilar vinnumarkaðarins þar stærstir, og því beinist spjótin að þeim. Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafi svo verið þeir sem helst hafi viðrað hugmyndir um bein afskipti af stjórn sjóðanna, á meðan Samtök atvinnulífsins hafi haldið friðinn á þeim vettvangi.

Tilnefningarnefndir gætu þrengt valið
Hún bendir enn fremur á þau gríðarlegu völd sem felist í stjórn svo stórs kerfis, en samanlagt fé sjóðfélaga í lífeyrissjóðakerfinu er meira en eigið fé bankakerfisins. Mikilvægt sé að tryggja að samþjöppun valds sé ekki of mikil. „Er ástæða til þess að sjóðsfélagarnir sjálfir velji sér fulltrúa með einhverjum hætti? Það er mjög flókið að velja í stjórn fyrirtækis í eigu svo margra aðila og það getur vel verið að það þurfi einhver þrengri hópur að vera tilnefningaraðili eða eitthvað í þá átt,“ segir Unnur og bendir á tilnefningarnefndir hlutafélaga, sem hafa verið að ryðja sér til rúms að undanförnu. „Síðan gæti verið ákveðinn hópur sem sjóðsfélagar gætu kosið úr. Ragnar Þór, formaður VR, hefur reyndar viðrað slíkar hugmyndir sjálfur.“

Auk frekari valddreifingar segir hún mikilvægt að samræmi sé í lagaumhverfi fjármálafyrirtækja. „Við höfum verið miklir talsmenn þess að endurskoða löggjöfina og færa til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru til annarra fyrirtækja á fjármálamarkaði. Almannahagsmunirnir sem eru undir eru einfaldlega svo miklir. Nú þegar hafa verið stigin skref í þá átt, svo sem með kröfu um virka áhættustýringu og lágmarkshæfni stjórnarmanna.“

Nánar er rætt við Unni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .