Síminn hagnaðist um tæplega 3,1 milljarða á árinu 2019 og jókst hagnaður félagsins um tæplega 2,8 milljarða króna á milli ára. Hafa verður þó huga að á fjórða ársfjórðungi2018 gjaldfærði Síminn tæplega 3 milljarða króna vegna niðurfærslu á viðskiptavild dótturfélagsins Mílu.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2019 nam 760 milljónum samanborið við 2,4 milljarða tap á sama tímabili árið á undan en gjaldfærslan vegna Mílu átti sér stað á sama fjórðungi 2018.

Tekjur námu 28,3 milljörðum á árinu 2019 og jukust um 1,4% milli ára en tekjur á fjórða ársfjórðungi 2019 námu tæplega 7,8 milljörðum og jukust um 4,7% milli ára. Þar af námu tekjur af sjónvarpsþjónustu 1.567 milljónum og jukust um 20,2% milli ára. Tekjur af sjónvarpsþjónustu námu rúmlega 5,6 milljörðum árið 2019 og jukust um 17% milli ára en þar hafa kaup Símans á sýningarrétti af ensku úrvalsdeildinni töluverð áhrif.

EBITDA ársins 2019 nam 10,5 milljörðum króna og jókst um 10,5% milli ára en EBITDA sem hlutfall af tekjum var 36,2% og hækkaði um 2,8 prósentustig á milli ára. EBITDA á fjórða ársfjórðungi nam rúmlega 2,7 milljörðum og jókst um 5,5% að tilliti til breytinga vegna IFRS 16.

Vaxtaberandi skuldir námu 16,2 milljörðum króna í árslok 2019 en voru 17,2 milljarðar króna í árslok 2018. Eigið fé var 36,6 milljarðar króna í lok ársins og eiginfjárhlutfall var 55,9%.

Í afkomuspá fyrir árið í ár segir að horfur í rekstri félagsins séu góðar þrátt fyrir kólnun í efnahagslífinu. Stjórnendur Símans gera ráð fyrir að EBITDA ársins verði a.m.k jafnmikil og árið 2019 og verði á bilinu 10,5 til 10,9 milljarðar króna og að fjárfestingar verði á bilinu 5,7 til 6 milljarðar.