Sjóvá varð á dögunum fyrsta íslenska skráða félagið til þess að ná hæstu einkunn á kynjakvarðanum GEMMAQ. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er þessum nýja kynjakvarða á Keldunni ætlað að vera eins konar kynjagleraugu fyrir Kauphöllina.

Einkunnir eru gefnar á skalanum 0-10,  þar sem 10 er hæsta mögulega einkunnin - miðað við hlutfall kvenna í stjórn og framkvæmdastjórn félagsins, og mælir GEMMAQ kynjakvarðinn þar með áhrif kvenna á kauphallarmörkuðum. Nú eru 60% stjórnarmanna Sjóvár konur, hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn er 50% og er stjórnarformaður félagsins er kona, það er Hildur Árnadóttir. Þá er jafnt hlutfall kvenna og karla í framkvæmdastjórn félagsins.

GEMMAQ er sprotafyrirtæki í eigu Freyju Vilborgar Þórarinsdóttur, sem er jafnframt hönnuðurinn á bakvið GEMMAQ kynjakvarðann. GEMMAQ kynjakvarðinn var hannaður fyrir íslenskan hlutabréfamarkað en í dag metur kvarðinn mánaðarlega fyrirtæki á alþjóðamörkuðum eftir kynjahlutföllum í stjórnum og framkvæmdastjórnum. Inni á Keldunni má sjá einkunnir samkvæmt skalanum fyrir öll fyrirtæki sem skráð eru á markað.

„Við hjá Sjóvá erum mjög stolt af því að vera fyrst skráðra félaga í Kauphöllinni til að fá tíu á GEMMAQ mælikvarðanum,“ segir Ágústa Björg Bjarnadóttir, mannauðsstjóri Sjóvá í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins.

„Þetta er enn ein staðfestingin á þeirri vegferð sem félagið hefur verið á í jafnréttismálum. En okkar áhersla hefur ekki einungis verið á að jafna kynjahlutföll í yfirstjórn fyrirtækisins heldur einnig í öðrum lögum starfseminnar. Þetta hefur haft mjög jákvæð áhrif á fyrirtækjamenningu okkar og skilað sér í stóraukinni ánægju viðskiptavina.“