Á stjórnarfundi Sjóvá í dag var tekin ákvörðun um að stefnt skyldi að útgáfu víkjandi skuldabréfa, ef ásættanleg kjör nást, samkvæmt tilkynningu frá tryggingafélaginu.

Fram kemur að á þessu stigi liggi ekki fyrir ákvörðun um fjárhæð útgáfunnar, tímalengd, skilmála eða nákvæma tímasetningu, en Sjóvá muni upplýsa nánar um slík atriði eftir því sem ákvarðanir hafi verið teknar.

Félagið mun í framhaldi af ákvörðun stjórnarfundar í dag afla sér ráðgjafar í tengslum við útgáfu og sölu skuldabréfanna. Stefnt er að skráningu þeirra í Kauphöll.

Tryggingamiðstöðin gaf út fyrsta víkjandi skuldabréf eftir hrun í maí 2015. Gefin voru út verðtryggð vaxtagreiðslubréf með 2 gjalddaga á ári, að nafnverði 2 milljarðar króna til 30 ára með 5,25% vöxtum fyrsta áratuginn, og 6,25% eftir það.

Í júlí 2016 gaf svo VÍS út bréf með sömu kjörum upp á rúma 2 milljarða króna.