Veitingastaðurinn Skál!, sem staðsettur er í Hlemmi Mathöll, hefur líkt og margir aðrir veitingastaðir neyðst til að loka vegna herts samkomubanns sem tók gildi í dag. Eigendur staðarins deyja þó ekki ráðalausir og kynna nú til leiks möguleikann á að fá mat af veitingastaðnum sendan heim að dyrum.

„Eftir að hafa legið undir feld og metið breytta stöðu í samfélaginu  þá höfum við verið að leita leiða til þess að halda áfram í eitthverri mynd að veita fólki mat á þessum sérstöku tímum og með það í huga að vernda störf okkar frábæra starfsfólks. Því langar okkur að bjóða upp á: SKÁL ELDAÐ HEIMA!

Hugmyndin með Skál eldað heima er að þetta verða máltíðir í anda Skál! sem verða tilbúnar til eldunar/samsetningar sem ætti ekki að taka meiri tíma en 10-15 mínútur,“ segir í tilkynningu frá Skál!

Til að byrja með verði þetta allt réttir sem hafa verið í boði á Skál! líkt og hin gríðarlega vinsælu bleikju og nauta skirt steik, en matseðillinn muni koma til með að breytast á milli vikna. Í þessu tilefni hafi verið settur upp tölvupóstlisti fyrir fréttabréf og vikulega matseðla sem muni vera sent út vikulega á meðan þessu stendur.

„Aðal hugmyndin var að geta haldið uppi góðum gæðum en samt mæta þeim hertu kröfum sem hafa orðið gagnvart veitinga- og þjónustustörfum,“ segir í tilkynningunni.

Pakkarnir munu verða í tveimur stærðum og verða í boði alla daga vikunnar. Minni pakkinn, sem hugsaður er fyrir tvo fullorðna og stærri pakkinn, sem hugsaður er fyrir 2 fullorðna og 2 börn.

„Pakkarnir koma með öllum hráefnum til að gera máltíðina með auðveldum hætti og ætti undirbúningstíminn ekki að vera meiri en 10-15 mínútur. Til viðbótar við matarpakkana munum við hafa kalda rétti aukalega sem og eftirrétti sem hægt væri að bæta við ef fólk er í fíling en þeir væru afhendir tilbúnir og þyrfti ekkert að gera nema byrja að borða!,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Að lokum segir í tilkynningunni að Skál! hlakki innilega til að bjóða öllum Skál! matinn á ný með bros á vör. Þá mæla forsvarsmenn staðarins með því að fólk njóti matarins með góðum náttúruvínum. Hægt er að skrá sig á póstlistann hér .