Fyrr í vikunni var tilkynnt hvaða veitingastaðir á Norðurlöndunum hefðu hlotið Michelin-stjörnur fyrir árið 2019. Veitingastaðurinn Skál! sem er í mathöllinni á Hlemmi, hlaut svokallaða Bib Gourmand viðurkenningu frá Michelin. Veitingastaðurinn Dill, sem varð árið 2017 sá fyrsti íslenski til að hljóta Michelin-stjörnu, missti hins vegar sína stjörnu og er því ekki meðal Michelin-stjörnu veitingahúsa árið 2019.

Í skýjunum með viðurkenninguna

Gísli Grímsson, einn af eigendum Skál!, segist vera í skýjunum með þessa viðurkenningu. Hann segir jafnframt að Bib Gourmand viðurkenningin sé stærsta viðurkenning sem veitingastaðurinn getur hlotið.

„Michelin veitir tvenns konar viðurkenningar. Annars vegar þessar þekktu Michelin-stjörnur, sem eru ætlaðar meira formlegum veitingastöðum, og hins vegar Bib Gourmand viðurkenninguna sem við vorum að hljóta. Þeir veitingastaðir sem hljóta þessa viðurkenningu þykja bjóða hágæða mat á hóflegu verði. Það hefur einmitt verið markmið okkar frá upphafi og því er þessi viðurkenning einstaklega ánægjuleg."

Vildu koma með ferskan blæ inn í veitingageirann

Skál! var opnað í september árið 2017. Gísli segir að rekja megi stofnun veitingastaðarins til sameiginlegs áhuga stofnenda hans á mat og drykk. „Við erum þrír vinir sem stofnuðum staðinn og eigum við það sameiginlegt að vera miklir mataráhugamenn. Hugmyndin að því að opna veitingastað kviknaði hjá okkur eftir að við heyrðum að það ætti að fara opna mathöll á Hlemmi. Okkur langaði að koma með ferskan blæ inn í veitingageirann á Íslandi og gera hluti sem höfðu ekki sést áður. Markmið okkar var að bjóða upp á hágæða mat á góðu verði og til þess þurftum við að fara nokkuð óhefðbundnar leiðir við gerð matseðils okkar og í drykkjavali.

Því fórum við til dæmis þá leið í vali á kjöti að velja þá hluta kjötsins sem njóta minni vinsælda, til dæmis grísakinnar og lambaslög, til þess að stuðla að góðri nýtingu hráefna - sem gerir okkur svo kleift að bjóða upp á mat á góðu verði. Með því að elda þessi hráefni á réttan máta er hægt að búa til frábæra máltíð. Hugsjónin gengur því mikið út á það að búa til góða rétti úr einföldu hráefni. Við leggjum sömuleiðis mikið upp úr því að nota íslensk hráefni."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Engu er til sparað við endurbætur á Fríkirkjuvegi 11.
  • Auknar sektir vegna skammtímagistinga.
  • Farið er yfir stöðuna í kjaraviðræðunum.
  • Fréttaskýring um stöðu stærstu fasteigna- og leigufélaganna.
  • Úttekt á ársreikningum stóru viðskiptabankanna þriggja.
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra Gluggasmiðjunnar.
  • Sagt er frá fyrirtæki sem hjálpar nýsköpunarfyrirtækjum að koma sér á framfæri erlendis.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um nafnbirtingar í dómum.
  • Óðinn skrifar um innviðagjöld, pálmatré og Heklugos.