Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í morgun á frávísunarkröfu verjanda meðlima hljómsveitarinnar Sigur Rósar í máli héraðssaksóknara gegn þeim. Fréttablaðið greindi fyrst frá. Úrskurðurinn mun sæta kæru til Landsréttar.

Bæði núverandi og fyrrverandi meðlimir sveitarinnar voru ákærðir í málinu, það er Jón Þór Birgisson, Georg Holm, Orri Páll Dýrason og Kjartan Sveinsson, auk endurskoðanda þeirra. Var þeim gefið að sök að hafa ranglega talið fram til skatts og með því komist hjá því að greiða um 150 milljónir króna í skatt.

Frávísunin byggði á reglunni um bann við tvöfaldri málsmeðferð en sakborningarnir höfðu þegar hlotið málsmeðferð hjá skattayfirvöldum. Íslenska ríkið hefur ítrekað hlotið áfellisdóma hjá Mannréttindadómstól Evrópu vegna brota gegn reglunni.