Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur varað Símann gegn því að upplýsa samkeppnisaðila sína um óvissu í kringum hvaða skyldur hvíla á leyfishöfum á íþróttaefni. Þetta kemur fram í bréfi frá til Símans frá SKE.

Tildrög málsins eru þau að Síminn hafði óskað eftir áliti SKE um hvaða heildsölukvaðir og skyldur fylgdu sýningarrétt á Ensku úrvalsdeildinni og öðru íþróttaefni. Þá fullyrti Síminn seinna að engar heildsölukvaðir fylgdu sýningarréttinum. SKE hefur nú hafnað þeim fullyrðingum og sagt að heildsölukvaðir séu atviksbundnar.

Sjá einnig: SKE sektar Símann vegna enska boltans

Í bréfi til SKE hafði Síminn óskað eftir því að fá að vita fyrirfram hvaða skyldur hvíli á rétthafa tiltekins myndefnis. Því væri SKE skylt „að gefa það út með formlegri ákvörðun fyrirfram, hvort sýningaréttum að ensku úrvalsdeildinni fylgi heildsölukvöð eða ekki. Ella er hætt við að bjóðendur í sýningarétti hafi ekki fullkomnar eða sömu upplýsingar og bjóði þar af leiðandi ranglega í réttindin," segir í bréfi Símans til SKE.

Þá taldi Síminn að SKE yrði að gefa út hvaða skyldur fylgi sýningarréttum, sér í lagi fyrir Ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu og veitti SKE níu daga frests til þess. „Að ðöðrum kosti væri óhjákvæmilegt að sögn Símans að upplýsa aðra bjóðendur og þátttakendur í útboðinu um óvissuna sem þessu fylgdi,“ segir í bréfi SKE.

Þegar að ekkert svar barst frá SKE fullyrti félagið að „engin heildsölukvöð væri til staðar vegna Ensku úrvalsdeildarinnar og þar af leiðandi væri Símanum eða öðrum aðilum, ekki skylt að afhenda útsendingar eða aðrar áskriftir að Ensku úrvalsdeildinni til keppinauta félagsins í heildsölu."

SKE hefur nú hafnað fullyrðingum Símans um að engin heildsölukvöð sé til staðar. Í bréfi SKE til Símans frá því í gær segir að „meint afstaða eftirlitsins vegna þeirrar aðstöðu sem Síminn lýsir liggur ekki fyrir, hún er atviksbundin hverju sinni, og bréf Símans getur ekki leitt til málsmeðferðar sem gæti endað með slíkri úrlausn eða  afstöðu á þessu stigi." Þá mun SKE ekki aðhafast frekar í málinu að svo sinni.

Að lokum er Símanum bent á að samskipti og upplýsingaskipti við keppinauta sína, „svo sem um skoðun félagsins á því hvert sé inntak og þar með verðmæti þess einkaréttar að myndefni sem fyrirhugað er að bjóða út," geti falið í sér alvarlegt brot á samkeppnislögum um bann við samráði keppinauta.