Samkeppniseftirlitið hefur heimilað fyrirhugaðan samruna Kviku, TM og Lykils fjármögnunar, samkvæmt tilkynningu félaganna til Kauphallarinnar í kvöld. Enn á eftir að uppfylla fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir samrunanum ásamt samþykki hluthafa á aðalfundum félaganna sem fara fram í lok mars.

Tveir fyrirvarar tengdust Fjármálaeftirlitinu, annars vegar varðandi samþykki þess á samrunanum og hins vegar samþykki á virkum eignarhluti Kviku í TM og Lykli. Seinni fyrirvarinn var samþykktur í dag en FME á enn eftir að veita samþykki fyrir sameiningu félaganna.

Samruninn var samþykktur af stjórnum fyrirtækjanna þann 25. nóvember síðastliðinn. Samkvæmt samrunaáætluninni munu hluthafar TM eignast 2.509.934.076 hluti í Kviku, með útgáfu nýs hlutafjár. Miðað við útgefið hlutafé Kviku í dag mun eignarhlutur hluthafa TM í hinu sameinaða félagi vera 53,7%.

Stjórnir félaganna telja að árleg kostnaðarsamlegð félaganna verði á bilinu 1.200-1.500 milljónir króna, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. „Því til viðbótar er talið að það séu önnur tækifæri í kostnaðarsamlegð en þau þarfnast frekari greiningar eftir samruna“, samkvæmt tilkynningu samhliða undirskrift samrunaáætlunar. Auk þessu telja stjórnir félaganna að samruninn geri félögunum kleift að auka tekjur sínar án þess að fjárhagslegt mat hafi verið lagt á þau tækifæri.

Marinó Örn Tryggvason og Sigurður Viðarsson, forstjórar félaganna, munu áfram gegna stöðum sínum, þar sem Marinó verður forstjóri Kviku og Sigurður Viðarsson verður forstjóri dótturfélagsins TM trygginga.