Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Nordic Visitor á ferðaskrifstofunni Terra Nova Sól. Arion banki greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Samið var um kaup Nordic Visitor á ferðaskrifstofunni Terra Nova Sól þann 19. desember síðastliðinn.

„Terra Nova Sól var hluti af TravelCo sem var stofnað í kjölfar gjaldþrots PrimeraAir og Arion banki tók yfir í júní 2019. Kaupin voru annars vegar með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem nú liggur fyrir og hins vegar áreiðanleikakönnun sem er lokið. Fyrirvarar kaupsamningsins eru því uppfylltir,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að fyrirtækjaráðgjöf Arion Banka hafi verið ráðgjafi seljanda og fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance verið ráðgjafi kaupanda.