Samkeppniseftirlitið hefur til skoðunar kvartanir sem því hafa borist frá Inter, samtökum internetþjónusta og fleiri fjarskiptafyrirtækja. Kvartanirnar snúast meðal annars um tilboð sem stærri fyrirtæki á fjarskiptamarkaði hafa verið að gera viðskiptavinum sínum. Umrætt tilboð felur í sér að fyrirtækin bjóða alla fjarskiptaþjónustu heimilisins frítt í 2-3 mánuði gegn því að koma í viðskipti til þeirra. Forsvarsmenn Hringiðunnar og Snerpu vilja meina að með framferðinu séu fyrirtækin að misnota markaðsráðandi stöðu sína.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að stofnunin hafi til skoðunar kvartanir frá ýmsum fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði en vill ekki tjá sig um efni kvartananna. Hann vill heldur ekki tjá sig um hvort þær hafi verið teknar til formlegrar rannsóknar. „Ég tel það ekki vera rétt að upplýsa á þessu stigi um nákvæmlega hverju það er verið að kvarta yfir en ég get staðfest að okkur hafa borist kvartanir sem snúa að fjarskiptamarkaðnum og eru þær til skoðunar.“

Síminn skilur ekki kröfurnar

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að hann eigi mjög erfitt með að skilja kröfur Inter samtakana. Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann að minni fjarskiptafélögin hafi sett fram mjög furðulegar kröfur.

Í skriflegu svari við fyrirspurnum blaðsins segir Orri:

„Félögin hjá Inter samtökunum hafa árum saman írtekað farið fram með fullyrðingar um meint tjón, án þess að hafa gert grein fyrir hinum meintu brotum Símans frá því á síðasta áratug. Félögin stefndu inn málum en drógu síðan þau mál til baka og hafa farið fram og til baka í málatilbúnaði, meintum upphæðum o.fl. Síminn hefur eðlilega átt í erfiðleikum með að skilja kröfur félaganna og þær fjárhæðir sem félögin setja fram. Verður þess vegna ekki séð hvernig Síminn eigi að geta borið skaðabótaábyrgð. Að öðru leyti er um dómsmál að ræða þar sem Síminn á eftir að skila sínum  greinargerðum um. Verður málið rekið í réttarkerfinu en ekki fjölmiðlum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .