Hlutabréf Skeljar fjárfestingafélag hækkuðu um 4% í kvartmilljarðs króna veltu í dag. Skel keypti í gær 796 milljóna króna hlut í VÍS og fer nú með 7,3% hlut í vátryggingafélaginu. Gengi Skeljar hefur nú hækkað um 5,8% í vikunni.

Hlutabréfaverð VÍS féll um hálft prósent í 341 milljón króna viðskiptum eftir 6,7% hækkun í gær. Félagið tilkynnti strax eftir lokun markaða áðan um skipulagsbreytingar og lagði þar áherslu á að félagið væri að umbreytast í stafrænt þjónustufyrirtæki. Níu manns láta af störfum við breytingarnar, þar á meðal Hafdís Hansdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu.

Sjóvá lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag eða um 2,5% í 233 milljóna viðskiptum. Hlutabréfaverð Sjóvár stendur nú í 38,8 krónum sem er um 2% hærra en í byrjun árs.

Gengi Marels hækkaði lítillega í 680 milljóna veltu og stendur nú í 700 krónum á hlut. Marel birtir uppgjör fyrsta ársfjórðungs á eftir.