SKEL fjárfestingafélag keypti í morgun 44 milljónir að nafnverði í VÍS, eða um 2,5% hlut fyrir 796,4 milljónir króna. Í flöggunartilkynningu kemur fram að Skel hafi einnig gert framvirka samninga fyrir 4,8% hlut í VÍS eða um 84 milljónir að nafnverði.

Við endanlegt uppgjör þessara samninga mun Skel fara með tæplega 128 milljónir að nafnverði eða um 7,3% hlut í VÍS sem er um 2,4 milljarðar króna að markaðsvirði. Skel er því orðið meðal fimmtu stærstu hluthafa vátryggingafélagsins. Í tilkynningunni kemur fram að framvirku samningarnir séu til 30 daga og framlengjast sjálfkrafa nema annað sé ákveðið.

Seldu allan hlut sinn í Íslandsbanka?

Á sama tíma í morgun fóru í gegn viðskipti með 3.844.298 hluti í Íslandsbanka sem er jafn mikið upp á hlut og Skel fékk úthlutað í hlutafjárútboði Bankasýslunnar í síðasta mánuði. Leiða má að líkum að Skel hafi selt allan eignahlut sinn í bankanum fyrir 482,5 milljónir í morgun en fjárfestingafélagið greiddi 449,7 milljónir fyrir hlutinn.

Viðskiptablaðið náði ekki tali við fulltrúa Skeljar við vinnslu fréttarinnar og ekki hefur borist svar frá félaginu við fyrirspurn blaðsins.