Kaupsamningur hefur verið undirritaður vegna kaupa Skeljungs hf. á öllu hlutafé Port I ehf. sem er eigandi Dælunnar ehf. og Löðurs ehf. og eignast Skeljungur því áðurnefnd félög. Kaupverðið er á bilinu 910 - 1.150 milljónir króna. Kaupin eru háð ýmsum forsendum og fyrirvörum, til að mynda um samþykki Samkeppniseftirlitsins að því er segir í tilkynningu.

Dælan rekur fimm eldsneytisstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Löður rekur fimmtán bílaþvottastöðvar, þar af þrettán á höfuðborgarsvæðinu, eina á Akureyri og eina í Reykjanesbæ. Fasteignir og lóðir eru hluti af kaupunum.

Kaupverð er háð forsendum í rekstri næstu ára auk ýmissa annarra skilyrða í kaupsamningi. Við afhendingu verða greiddar ríflega 280 milljónir og yfirteknar nettó vaxtaberandi skuldir um 628 milljónir. Allt að 240 milljónir eru háðar forsendum í rekstri og öðrum skilyrðum.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs:

„Við teljum að rekstur Dælunnar og Löðurs falli vel að rekstri Skeljungs og sjáum mörg tækifæri með kaupunum til að útvíkka rekstur Skeljungs. Stöðvar Dælunnar eru vel staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og sjáum við ýmis tækifæri tengd þeim. Markmið okkar er að eldsneytisala Dælunnar verði rekin undir merkjum Orkunnar.

Þá er það mat okkar að rekstur umhverfisvænna þvottastöðva sé framtíðin en Skeljungur vinnur að því að loka þvottaplönum sínum m.a. vegna umhverfisjónarmiða. Við höfum áhuga á að opna fleiri þvottastöðvar Löðurs á lóðum Skeljungs sem væri liður í að styrkja staðsetningar okkar og auka þjónustu á stöðvunum.“