Olíufélagið Skeljungur hefur svarað skýrslu samkeppniseftirlitsins en þeir segja að mikill munur sé á innlendum markaði og markaði samanburðarlanda.

Skeljungur segir að eldsneytismarkaðurinn sé ólíkur hér á landin heldur en í nágrannalöndunum. Meðal annars er bent á að ólíkt Íslandi þá sjá sömu aðilar almennt ekki um smásölu á eldsneyti og einnig um birgðahald og innflutning.

Í skýrslu samkeppniseftirlitsins var einnig bent á hátt lítraverð á Íslandi. Niðurstaðan var fengið með að bera saman eldsneytisverð á Íslandi og Bretlandi, en Skeljungur segir að lítraverð þar sem með því lægsta í Evrópu. Skeljungur bendir einnig á að mikill munur er á þessum tveim markaðssvæðum, en breski markaðurinn þjónar um 62,5 milljónum íbúa meðan sá íslenski þjónar um 0,33 milljónum íbúa.

Samkeppniseftirlitið hefur einnig birt fréttatilkynningu vegna umfjöllunar um skýrsluna. Eftirlitið segir að í viðbrögðum olíufélaga segi að eftirlitið taki ekki tillit til stærðar markaða, þéttleika byggðar og flutnings- og dreifingarkostnaðar þegar álagning á íslenskum og breskum markaði er borin saman. Samkeppniseftirlitið áréttar að svo hafi verið.

„Í frummatsskýrslunni byggir verðsamanburður á milli Íslands og Bretlands á tölum úr rekstri íslensku olíufélaganna og áætlaðri smásöluálagningu m.v. breska sjálfstæða smásala sem hafa einna hæstu smásöluálagningu þar í landi. Tekið er tillit til innkaupsverðs íslensku olíufélaganna, flutningskostnaðar til Íslands og dreifingar- og birgðakostnaðar á Íslandi í verðsamanburðinum. Frumniðurstaða um að íslenskir neytendur hafi ofgreitt 4,0 - 4,5 milljarða króna (með vsk) á árinu 2014 miðast við neðri mörk samanburðarins og er því varfærin.“