Ryanair tilkynnti í morgun að félagið myndi draga úr sætaframboði félagsins um þriðjung til viðbótar. Nú stefnir félagið á að flugframboðið verði um 40% af því sem það var fyrir ári í stað 60% sem áður var stefnt að. Félagið kennir óstjórn evrópskra flugmálayfirvalda um stöðuna samkvæmt frétt Sky News.

Félagið mun jafnframt loka flughöfnum sínum í Cork, Shannon og Toulouse í vetur.

Takmarkanir á flugumferð á milli fjölda Evrópuríkja hafi valdið því að verulega hafi dregið úr bókunum næstu mánuði. Ryanair býst við að 38 milljónir farþega fljúgi með félaginu á yfirstandandi rekstrarári en þeir voru 149 milljónir á síðasta rekstarári sem lauk í lok mars. Félagið hafði stefnt að því að fljúga með 200 milljónir farþega á ári innan fárra ára áður en faraldurinn skall á.

Hugsanlegt gæti verið að farþegar verði enn færri ef „óstjórn“ flugmálayfirvalda í Evrópu haldi áfram inn í veturinn sem og harðar sóttvarnaraðgerðir.

Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, segir óhjákvæmilegt að starfsfólki verði sagt upp, það sett í launalaust leyfi eða vinnustundum fækkað.  Flugmenn og flugþjónar Ryanair sömdu við Ryanair um launalækkun í sumar gegn því að færri starfsmönnum yrði sagt upp.