Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku hf., var fyrir skömmu síðan kjörinn nýr formaður Samorku á aðalfundi samtakanna. Hann tók þá við formennsku af Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, sem lætur af stjórnarsetu.

Helgi er menntaður vélstjóri, vélatæknifræðingur og vélaverkfræðingur frá Vélskóla Íslands og háskólum í Óðinsvéum og Álaborg. Hann hefur mikla reynslu af orkubransanum. Hann hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja í geiranum. Helst má þar nefna Norak ehf., Íslenskrar orku og Hrafnabjargavirkjunar, hverra stjórna hann var og er formaður. Auk þess hefur hann verið í stjórnum Tengi ehf. og Orkeyjar ehf.

Yfir hundrað aðildarfélög

Samorka var stofnuð árið 1995 þegar Samband íslenskra hitaveitna og Samband íslenskra rafveitna runnu saman. Innan samtakanna starfa fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, raforkuframleiðendur, -salar og -dreifingaraðilar. Aðildarfélög Samorku eru fleiri en hundrað. „Samorka er með fimm manna starfslið og eru samtök orku og veitufyrirtækja,” segir Helgi.

„Við rekum mikið fagstarf – við höldum ráðstefnur fyrir okkar félagsmenn þar sem þeir deila af þekkingu sinni og reynslu til annarra. Svo erum við einnig málsvari þessara greina út á við og höfum unnið að því að auka þátt okkar í að vera upplýsandi og vinna gögn. Við viljum fyrst og fremst vera trúverðugur og heiðarlegur samstarfsaðili stjórnvalda og almennings í málum orku- og veitufyrirtækja.”

Skíða og sigla í náttúrunni

Helgi og eiginkona hans búa á Akureyri en þau voru fædd þar og uppalin. Eftir nokkra umflutninga settust þau svo aftur að á Akureyri árið 1996 og hafa þau verið þar síðan. „Það er helst náttúran og skíðin sem dregur mann hingað mikið,” segir Helgi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .