Skilyrði um þriðjungssamdrátt tekna, til að fresta megi skilum tekjuskatts vegna launagreiðslna, verður fellt brott, og Skattinum þess í stað eftirlátið að túlka hvort um „verulega rekstrarörðugleika“ sé að ræða.

Komist síðari endurskoðun að annarri niðurstöðu en upphaflega ákvörðunin verður álagi bætt við greiðsluna. Nánar tiltekið er skilyrði fyrir frestuninni að „launagreiðandi eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls vegna almenns samdráttar innan lands og á heimsvísu“.

Skattinum verður heimilt að fara fram á rökstuðning og gögn á borð við lækkun virðisaukaskattsskyldrar veltu sem sýni fram á verulega rekstrarörðugleika.

Þetta er meðal þess sem felst í breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á frumvarpi um aðgerðir til að mæta efnahagsáhrifum kórónufaraldursins.

Taldi nefndin eðlilegt að eftirlitsaðili hefði svigrúm til að meta aðstæður í ólíkum tilfellum, en væri ekki bundin af hörðu skilyrði á borð við þriðjungssamdráttinn, þar sem henni hefði verið bent á að skilyrðið gæti útilokað fyrirtæki sem „þyrftu raunverulega á úrræðinu að halda“.

Frestunarheimildin nær til allt að þriggja greiðslna afdreginnar staðgreiðslu tekjuskatts launþega á tímabilinu 1. apríl til ársloka, og verða gjöldin þá á gjalddaga 15. janúar næstkomandi, en auk þess verður hægt að sækja um frekari frestun fram á sumarið 2021.