Skúli Mogensen forstjóri og eigandi Wow air fékk í hendur ný skilyrði í viðræðum sínum við Indigo partners á fimmtudaginn síðasta sem komu honum verulega á óvart að því er Fréttablaðið greinir frá.

Snúa skilyrðin að því að skuldabréfaeigendur Wow air þurfi að samþykkja tugprósenta afskriftir sem og að eignarhlutur hans sjálfs í félaginu verði hverfandi, til þess að fá 9 milljarða fjárfestingu Indigo partners inn í félagið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um telja heimildarmenn sem þekkja til í flugiðnaðinum að virkur eignarhlutur Skúla gæti að lokum farið niður í 4 til 5%, þó samkvæmt íslenskum lögum geti aðili eins og Indigo Partners, sem kemur utan EES svæðisins, ekki átt meira en 49% hlut í félaginu.

Voru nýju skilyrðin sett fram sama dag og frestur skuldabréfaeigendanna átti að renna út , en hann var í framhaldinu framlengdur. Jafnframt hafði Skúli samband við Icelandair um að taka aftur upp þráðinn um kaup félagsins á Wow air, en ekki reyndist áhugi fyrir því.

Nú, tæpri viku eftir fresturinn var framlengdur, er ekki búið að hafa samband við skuldabréfaeigendur Wow air og nefna sumir möguleikann á að Skúli sé að leita annarra leiða til að fá fjárfesta að félaginu.