Snædís Ögn Flosadóttir er framkvæmdastjóri lífeyrissjóðanna EFÍA og LSBÍ. Spurð hver hennar menntun og fyrri störf eru segir Snædís að hún sé að ljúka við meistararitgerð sína í iðnaðarverkfræði. „Ég er með verkfræðimenntun frá HÍ og er með próf í verðbréfamiðlun líka. Ég er iðnaðarverkfræðingur í grunninn og er einnig að ljúka við master í iðnaðarverkfræði.“

Þegar Snædís er spurð að því hvernig hún leiðist út í þetta starf þá segist hún bæði hafa sóst eftir því og leiðst út í það á sama tíma. „Þegar ég byrjaði í verkfræði þá ætlaði ég ekki að vera bankastarfsmaður eða vinna í fjármálageiranum, hvað þá að það hvarflaði að mér að verða framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs. Raungreinar voru mínar ær og kýr og allt þeim tengt vakti áhuga minn. Ég byrja að vinna í Arion banka með náminu, þá vissi ég í raun ekki hvað þetta væri áhugavert.

Þegar Snædís er spurð út í starf framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs segir hún að það sé sérstaklega fjölbreytt og henti henni vel.

„ Á einum og sama deginum hef ég kannski flutt kynningu, verið í sambandi við sjóðfélaga, grúskað í túlkun á lagatexta og samþykktum lífeyrissjóðs og velt fyrir mér endurmati eigna í tryggingafræðilegu mati sjóðsins. Það sem hefur kannski komið mér mest á óvart á þessum tíma er hversu gaman ég hef haft af lögfræðinni sem lífeyrissjóðirnir heyra undir. Einhvern vegin var ég haldin þeirri hugsanavillu að raungreinamanneskjan ég gæti ekki haft áhuga á lögfræði en þar hafði ég svo sannarlega rangt fyrir mér,“ segir Snædís.

Ítarlegt viðtal við Snædísi er í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .