Íbúðalánasjóður hefur skipt starfsemi sinni í tvo starfsþætti. Stofnun sem ber ábyrgð á stjórn og framkvæmd húsnæðismála og ÍLS sjóð heldur utan um fjármálaumsýslu sem tengist fyrri starfsemi sjóðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Stjórn Íbúðalánasjóðs samþykkti á fundi sínum í dag breytingar á skipuriti stofnunarinnar. Markmiðið með skipulagsbreytingunum er að endurspegla betur nýtt hlutverk stofnunarinnar sem stjórnvalds á sviði húsnæðismála, sem varð til með breytingum á lögum um húsnæðismál á Alþingi síðastliðið vor.

Starfsemi Íbúðalánasjóðs skiptist eftir breytinguna í tvo ólíka starfsþætti. Annars vegar stofnun sem starfar sem stjórnvald á sviði húsnæðismála og ber ábyrgð á framkvæmd laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Hins vegar ÍLS sjóð sem annast alla fjármunaumsýslu sem tengist fyrri starfsemi sjóðsins frá þeim tíma þegar hann var fyrst og fremst lánastofnun. Gert er ráð fyrir að stofnunin taki fljótlega upp nýtt nafn í samræmi við breytt hlutverk sitt í lögum.

Íbúðalánasjóðir ber í dag ábyrgð á eftirfylgni með fjölmörgum lögum sem sett hafa verið um húsnæðismarkaðinn á undanförnum árum og aðkomu hins opinbera að honum. Meðal annars er þar að ræða framkvæmd laga um húsnæðisbætur, framkvæmd laga um almennar íbúðir, sem og framkvæmd laga um húsnæðismál sem kveða m.a á um lánveitingar á samfélagslegum grunni til að stuðla að jafnrétti og öryggi í húsnæðismálum landsmanna.

Þá ber sjóðurinn nú ábyrgð á framkvæmd húsnæðisáætlana í samstarfi við öll sveitarfélög landsins. Stofnunin sinnir auk þess stefnumótun og margvíslegri gagnaöflun og greiningum á sviði húsnæðismála, heldur úti hagdeild sem gefur m.a. út mánaðarlegar skýrslur um húsnæðismarkaðinn. Einnig sinnir sjóðurinn fjölmörgum verkefnum við greiningar, svo sem á opinberum húsnæðisstuðningi, íbúðamarkaði, leigumarkaði, húsnæðisvanda eftir svæðum og félagshópum, hagkvæmni í byggingu íbúða og mörgu fleiru.

Skipting starfseminnar í tvo starfsþætti tekur m. a mið af tillögum starfshóps sem stjórnvöld skipuðu til þess að leita leiða til að draga úr áhættu ríkissjóðs vegna stóraukinna uppgreiðslna hjá Íbúðalánasjóði eftir að almennri lánastarfsemi var að mestu hætt fyrir nokkrum árum og bankar og lífeyrissjóðir tóku við því hlutverki. Með bókhaldslegum aðskilnaði starfseminnar, þar sem fjármálaumsýslan er afmörkuð sérstaklega, næst betri yfirsýn fyrir hið opinbera á umfangi umsýslunnar.

Í samræmi við tillögur áðurnefnds starfshóps hefur stjórn Íbúðalánasjóðs samþykkt að setja á laggirnar samráðsnefnd vegna umsýslu fjármunanna. Í samráðsnefndinni er gert ráð fyrir að eigi sæti fulltrúar sjóðsins, félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands.  Með þessum hætti verður best tryggt að úrvinnsla og stýring áhættu vegna fjármálaumsýslu fyrri starfsemi sjóðsins verði árangursrík en ríkisvaldið hefur mörg fleiri úrræði til að draga úr áhættu sinni vegna skuldbindinga og eignasafns sjóðsins.

„Breytingar á lagaumhverfi Íbúðalánasjóðs hafa leitt til umbyltingar á starfsemi stofnunarinnar og því afar mikilvægt að skipurit hans endurspegli breytt hlutverk og ný verkefni. Í dag snýst starfsemi stofnunarinnar fyrst og fremst um stjórnsýslu húsnæðismála og þar eru mörg krefjandi verkefni sem kallar á breytt skipulag," er haft eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs.