Nýtt svið, Þjónustuupplifun (Customer Experience), mun taka við þeim þáttum starfseminnar sem snúa að þjónustuupplifun viðskiptavina Icelandair. Birna Ósk Einarsdóttir, sem gekk til liðs við félagið í ársbyrjun sem framkvæmdastjóri stefnumótunar- og viðskiptaþróunarsviðs, verður framkvæmdastjóri sviðsins. Sviðið mun meðal annars bera ábyrgð á þjónustu um borð, framlínu, vildarklúbbi, viðbótartekjum og vöruþróun. Þá mun stafræn þróun og gagnavinnsla vera hluti af sviðinu ásamt stefnumótun og viðskiptaþróun.

Starfsemi sölu- og markaðssviðs Icelandair og starfsemi Icelandair Cargo munu heyra undir einn framkvæmdastjóra. Gunnar Már Sigurfinnsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Icelandair Cargo undanfarin tíu ár, mun verða framkvæmdastjóri sviðsins. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair frá 2005-2008. Eftir breytinguna mun sölu- og markaðssvið meðal annars bera ábyrgð á sölu félagsins á öllum mörkuðum, markaðsmálum, tekjustýringu, leiðakerfi og dreifingu.

Við breytinguna fækkar um einn í framkvæmdastjórn félagsins og lætur Guðmundur Óskarsson af störfum sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. Hann mun starfa áfram hjá félaginu.