Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu AkvaFuture ehf. að matsáætlun á umhverfisáhrifum allt að 20.000 tonna laxeldis í lokuðum kvíum í Eyjafirði. Næsta skref er að gera umhverfismat sem tekur allt að fimmtán mánuðum að ljúka.

Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri AkvaFuture ehf., fagnar niðurstöðunni. „Hún færir okkur nær áformum um að setja á stofn fyrsta flokks laxeldi í lokuðum sjókvíum við Íslandsstrendur.“

Í umhverfismatinu vill Skipulagstofnun sjá tólf atriði útlistuð sérstaklega, auk þeirra sem AkvaFuture lagði til, í samræmi við umsagnir þeirra ellefu stofnana og sveitarfélaga sem komu að málum.

„Við stjórnendur AkvaFuture leggjum mikla áherslu á gott samstarf við heimamenn, sveitarfélög og stofnanir svo að umgjörð fyrirhugaðs laxeldis verði sem ákjósanlegust og umhverfisáhrifin sem minnst.“

AkvaFuture var stofnað í september 2017 með það að markmiði að fá leyfi til laxeldis í lokuðum sjókvíum við Ísland. Fyrirtækið nýtir tækni móðurfélags síns AkvaDesign AS, þ.e. lokaðar kvíar. Tæknin kemur í veg fyrir að laxalús þrífist og dregur stórlega úr umhverfisáhrifum því með auðveldum hætti má safna miklum meirihluta botnfalls frá eldinu. Þá er með tvöfaldri vörn, sem samanstendur af lokaðri kví og eldisnót þar utan um, leitast við fyrirbyggja að fiskur sleppi og aðeins við stórkostlegar hamfarir eða mistök við flutning er hætta á því.

Sagt var frá því í síðustu viku að fyrirtækið hefði einnig lagt fram matsáætlun fyrir fiskeldi í lokuðum sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. „Við vonum að niðurstaðan sé vísir að því sem koma skal þar líka,“ segir Rögnvaldur.