Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að með áframhaldandi þéttingarstefnu í borginni séu fólk og fyrirtæki að þrýstast utar og utar, en Þorlákshöfn taki vel á móti þeim með lágum gjöldum og nægu lóðaframboði. Stefna á að ná Eyjum í mannfjölda á átta árum.

Eftir að auglýsingaherferð, sem sett var af stað fyrir tveimur árum til að auglýsa Ölfus sem valkost fyrir fólk af höfuðborgarsvæðinu hafi skilað sínu segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi sem inniheldur Þorlákshöfn, að nauðsynlegt hafi verið að skipuleggja fleiri lóðir. Elliði, sem hóf störf í sveitarfélaginu í sumar, segir stefnuna einnig að stækka iðnaðarhverfi og höfnina.

„Þær lóðir sem þá voru til eru meira og minna allar farnar, svo núna erum við með í skipulagi nýtt íbúðarhverfi sem ætti að koma til auglýsingar á næstu dögum. Þar erum við að fara að bjóða upp á hundruð lóða, en hluti af þeim verður fyrir fjölbýlishús,“ segir Elliði en töluverða athygli vakti á dögunum þegar byggingaraðilar settu fram áætlun um að bjóða litlar íbúðir í bænum á undir 15 milljónir króna.

„Við finnum sterkt fyrir því að á sama tíma og þéttingarstefnan hefur fengið meiri byr í borginni að fólk og fyrirtæki eru að þrýstast utar og utar. Hér í Ölfusi erum við í raun og réttu úthverfi Reykjavíkur, enda eru ekki nema 30 mínútur að keyra hér á milli. Það er ekki eðlilegt ástand að á fimmtudegi skuli 15 blokkaríbúðir vera auglýstar til sölu og á föstudegi skuli fjórfalt fleiri skráðir fyrir íbúðunum. Síðan hafa fleiri byggingaraðilar leitað til okkar með sambærileg verkefni og verðin sem þeir hyggjast bjóða hér eru allt önnur og lægri en við höfum verið að sjá á höfuðborgarsvæðinu sjálfu síðustu ár sem bendir til þess að þetta sé almennt hægt ef boðið er upp á lóðir.“

Skógræktin eykur umhverfisgæðin

Elliði segir að sá tími sem tapist á því að keyra til borgarinnar skili sér margfalt til baka í meiri nánd við alla þjónustu og minna skutl. „Það er allt hérna í mínútu fjarlægð, en þessi nýju fjölbýlishús eru í um 70 metra fjarlægð héðan, sem er mjög miðsvæðis. Við mátum það svo að stærsta þörfin væri fyrir svona fyrstu og seinustu íbúðir á hagkvæmu verði,“ segir Elliði.

„Við búum svo vel að eiga gríðarmikið flatt uppland sem er kjörið byggingarland. Síðan lækkar það byggingarkostnaðinn fyrir þá sem eru að flytja inn byggingarefni, að vöruflutningaskipið Mykines kemur hérna vikulega frá Rotterdam. Umhverfisgæðin hér eru síðan að fara að aukast mjög mikið, því héðan frá Selvogi og út að Þrengslaveginum, þar sem hafa verið sandar í árþúsundir er nú að fara af stað stærsta skógræktarverkefni Íslandssögunnar.“

Nánar má lesa um málið í Fasteignamarkaður, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .