Þak tilkynningraskyldra samrunar verður hækkað og heimild Samkeppniseftirlitsins (SKE) til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verða felld úr gildi. Þetta er meðal þess sem felst í frumvarpi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingu á samkeppnislögum.

Frumvarpið hefur ekki verið lagt fram, hvorki drög í Samráðsgátt né á þingi, en Fréttablaðið segir frá frumvarpinu og efni þess. Samkvæmt frétt blaðsins verður það lagt fram við upphaf þingfundar í dag.

Auk fyrrnefndra breytinga verður felld úr gildi það skilyrði að SKE muni þurfa að veita undanþágu frá lögunum vegna samstarfs fyrirtækja. Þess í stað munu fyrirtækin sjálf meta hvort skilyrði laganna fyrir slíku samstarfi sé uppfyllt.

„Samkvæmt frumvarpinu verða veltumörk tilkynningarskyldra samruna, sem hafa haldist óbreytt frá 2008, hækkuð nokkuð frá því sem nú er. Ef samanlögð ársvelta fyrir­tækja sem vilja sameinast er þrír milljarðar eða að minnsta kosti tvö fyrirtækjanna hafa yfir 300 milljóna ársveltu hér á landi beri þeim þannig skylda til að tilkynna samrunann til eftirlitsins. Í dag miðast mörkin við annars vegar tvo milljarða og hins vegar 200 milljónir,“ segir í Fréttablaðinu.

Þá er einnig lagt til að skipunartími forstjóra SKE verði styttur, það er að hann verði ráðinn af stjórn til fimm ára og að hámarki í tvö slík tímabil. Hingað til hefur forstjóri SKE verið skipaður ótímabundið en núverandi forstjóri, Páll Gunnar Pálsson, hefur stýrt eftirlitinu frá 2005. Breytingin nú mun ekki ná til hans með afturvirkum hætti.