Kínversk stjórnvöld eru á vef Bloomberg sögð meta áhrif þess að lækka gengi gjaldmiðilsins, yuansins, sem hluta af aðgerðum ríkisins í viðskiptadeilunni við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Deilan hefur haft mikil áhrif á markaði nú þegar en bæði ríkin hafa tilkynnt fyrirætlanir um að leggja tolla á vörur frá hinu landinu að andvirði 50 milljarða dala auk þess sem Trump hefur beint því til ríkisstjórnar sinnar að íhuga tolla á varning að verðmæti 100 milljarða dala til viðbótar.

Greiningin á yuaninu er tvíþætt. Annars vegar er litið til áhrifa af því að nota gengi gjaldmiðilsins í samningaviðræðum við Bandaríkin en hins vegar er litið til áhrifa af því að lækka gengið til þess að vega á móti viðskiptasamningi sem dregur úr útflutningi.

Greiningin þýðir ekki að af verði af gengislækkuninni heldur er talið að Kínverjar séu með þessu að sýna tennurnar þ.e. hvaða verkfærum þeir séu tilbúnir að beita í samningaviðræðum eða viðskiptastríði.