Endurgreiðslur ríkisins til erlendra kvikmyndaverkefna hér á landi hafa ekki verið lægri í sjö ár, þrátt fyrir að endurgreiðslurnar hafi hækkað úr 20% í 25% í byrjun árs 2017. Hins vegar benda tölurnar til þess að árið 2019 hafi verið stórt í íslenskri þátta- og kvikmyndagerð, en endurgreiðslur vegna innlendrar kvikmyndagerðar hafa ekki verið hærri í níu ár og námu rúmlega 1,1 milljarði króna.

Endurgreiðslur vegna erlendra verkefna námu 212 milljónum króna í fyrra og 335 milljónum árið 2018 en voru til samanburðar nærri 1,1 milljarði króna árið 2016. Út frá þessu má áætla að umsvif styrkhæfrar erlendrar kvikmyndagerðar hér á landi hafi numið rúmlega 800 milljónum króna í fyrra og um 1,5 milljörðum króna árið 2018 en til samanburðar nam veltan árið 2016 um 5 milljörðum króna.

Árið 2019 það þriðja besta í sögu Truenorth

Leifur B. Dagfinnsson, framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Truenorth, segir að ágætlega hafi ræst úr árinu 2019 hjá félaginu en félagið kom m.a. að fjórum stórum erlendum verkefnum síðasta haust; tveimur kvikmyndaverkefnum á vegum Netflix og tveimur á vegum bandaríska framleiðandans Skydance. Hann bendir á að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar séu ekki greiddar út fyrr en að verkefnunum er lokið og því séu þessi verkefni ekki inni í endurgreiðslutölum síðasta árs.

„Árið 2019 er það þriðja besta frá stofnun fyrirtækisins. Sú staðreynd kom skemmtilega á óvart, í ljósi þess hve mikið kostnaður hér á Íslandi hefur hækkað undanfarin ár. Í þeim fjárhagsáætlunum sem við höfum verið að gera má sjá að launakostnaður hefur hækkað um 20-30%, auk þess sem annar rekstrarkostnaður hefur sömuleiðis hækkað en þó ekki nærri því jafn mikið og launakostnaðurinn."

Leifur segir að fyrrnefnd hækkun endurgreiðslna úr 20% í 25% hafi að einhverju leyti unnið upp á móti hækkandi kostnaði.

„Að mínu mati má endurgreiðslan alls ekki vera lægri en 25%. En ef miðað er við hvað Ísland er orðið dýrt í samanburði við önnur lönd, mætti skoða það að hækka endurgreiðsluhlutfallið enn meira."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .