Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að áhrif Costco á markaðinn hérlendis fyrir snyrti- og hreinlætisvörur hefðu verið skoðuð sérstaklega að kröfu samrunaaðila. „Áhrif Costco á þessa markaði voru skoðuð ítarlega að því marki sem það er hægt,“ segir Páll í Morgunblaðinu í dag.

„Að kröfu samrunaaðila tókum við áhrif Costco síðan til enn frekari skoðunar í lok rannsóknarinnar þegar verslunin hafði verið opin í nokkrar vikur.“ Segir Páll niðurstöðuna af því að ekki væri fyrirsjáanlegt að á næstunni verði áhrif fyrirtækisins á þann markað mikil, en rannsóknin sjálf hófst í febrúar, en Costco opnaði 23. maí síðastliðinn.

„Þessi ákvörðun er byggð á mjög ítarlegri rannsókn sem hófst í febrúar síðastliðnum,“ segir Páll. „Samruninn tekur til nokkurra markaða, suma þeirra þekkjum við vel eins og dagvörumarkaðinn og lyfjamarkaðinn, en við höfum ekki rannsakað hreinlætis- og snyrtivörumarkaðinn eins ítarlega og við gerðum núna þar sem sá markaður hefur lítið komið til umfjöllunnar hjá Samkeppniseftirlitinu áður.“