Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka telur deilur um söluferlið á Íslandsbanka í gegnum tilboðsfyrirkomulag (e. accelerated bookbuild) til fagfjárfesta, m.a. stafa af því hve lítil þekking sé almennt á slíku útboðsferli hér á landi.

„Söluferlið með tilboðsfyrirkomulagi olli pólitískum og opinberum deilum en ástæða þess er líklega að til aðferðafræðin er lítt þekkt hér á Íslandi,“ sagði Birna við kynningu á ársfjórðungsuppgjöri Íslandsbanka, nú í síðustu viku.

Ummæli Birnu bera á góma í ítarlegri umfjöllun Mark Baker, blaðamanns Euromoney , á sölunni á Íslandsbanka en þar er einnig rætt við Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslunnar.

Jón Gunnar segist í umfjölluninni vera sammála Birnu með ókunnugleika Íslendinga á útboðsaðferðinni en bætir við að eftir á að hyggja hefði Bankasýslan og ríkisstjórnin mátt gera betur í að útskýra útboðið fyrir almenning áður en það fór fram.

Í greininni segir Jón Gunnar einnig að útboðsferlið í mars í raun vera betur heppnað en frumútboð Íslandsbanka þegar bankinn var skráður á markað síðasta sumar.

Í umfjölluninni fer Jón Gunnar yfir forsendur þess að ráðist var í útboðið. Hann segir að upprunalega tillagan um sölu bankans hafi verið lögð fram í mars 2020, en svo felld niður tveim vikum seinna vegna heimsfaraldursins. Það var svo í desember sama ár sem tillagan fór aftur á dagskrá, m.a. vegna verulegs hallareksturs ríkissjóðs sem kostnaðarsamt var að fjármagna eingöngu með lánsfé.

Mark fjallar svo um þann pólitíska glundroða sem fylgt hefur seinna útboðinu. Nefnir hann þannig hagsmunatengsl Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem og skyldur hans hvað sölu bankans varðar.

Í niðurlagi greinarinnar segir hann að frekari einkavæðing sé komin á ís sem muni að líkindum hægja á alþjóðavæðingu íslensks fjármálamarkaðar. „Það væri sorgleg niðurstaða á meðan landið væntir þess að vera fært upp um flokk hjá vísitölusjóðum,“ og nefnir FTSE Russell sem dæmi.