Þrátt fyrir myndarlega aukningu milli ára var hagnaður Heklu langtum minnstur í fyrra meðal stóru bílaumboðanna fimm. Velta dróst lítillega saman á meðan um tveggja stafa prósentuhækkun var að ræða hjá Toyota, Öskju, Brimborg og BL.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu segir skýringuna helst liggja í því hvað faraldurinn hafi haft lamandi áhrif á þýska bílaframleiðendur sérstaklega, en Hekla er með umboðið fyrir bæði Volkswagen og Audi.

„Við erum bara þokkalega sáttir við árið í fyrra,“ segir Friðbert í samtali við blaðið.

„Það hafa verið miklar áskoranir út af faraldrinum, en við höfum verið í hagræðingaraðgerðum síðustu árin sem gerðu það að verkum að við vorum í raun mjög vel undirbúin fyrir svona mótlæti.“

Stytting vinnuvikunnar og fleira hafi aukið þrýsting á að gera hlutina með öðrum og hagkvæmari hætti en áður. „Þetta er hluti af því sem við höfum verið að fara í gegnum síðustu árin. Sjálfvirknivæðing hefur aukist mikið og við höfum sinnt því mjög vel.“

„Örflöguskorturinn dreifðist ekki jafnt á alla. Covid virðist hafa komið verr niður á bílaframleiðslu í Evrópu en annars staðar í heiminum.“

Framleiðslan styrkist hratt
„Árið í fyrra kom bara vel út. Eftirspurn fór vaxandi og orkuskiptin ganga bara vel,“ segir Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju.

Hann segir bílaframleiðslu vera að styrkjast mjög um þessar mundir og sér fyrir sér að sú þróun haldi áfram þegar líður á árið.

„Við teljum að þetta ár geti orðið gott, þó það verði kannski aftur þungt. Þetta er svolítið öðruvísi vor núna en hefur verið undanfarin ár. Það vantar bíla fyrir bílaleigur til dæmis, en ég held að það muni ganga nokkuð hratt yfir og þeir komi þegar það fer að líða á árið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .