Skyhook er fyrirtæki sem gefur flugvirkjum og flugmönnum möguleika á að skrá reynslutíma sinn miðlægt á internetinu. Gísli Haukur Þorvaldsson stofnaði félagið fyrir fjórum árum, en þá fór félagið í gegnum viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík.

„Reynsla flugvirkja snýst í raun bara um að staðfesta að þeir hafi unnið í þessum flugvélum og svo leyst þær út í flug,“ segir Gísli. „Rétt eins og flugmenn gera þegar þeir fljúga frá einum stað til annars.“

Auk Gísla, sem starfar sem framkvæmdastjóri Skyhook, starfar Gunnlaugur Reynir Sverrisson við markaðsstjórnun og sölu, auk þess sem Guðrún Guðmundsdóttir, eiginkona Gísla, starfar sem fjármálastjóri félagsins. Þá eiga Arion banki og Ground Maintenance Technics hlut í félaginu.

„Hugmyndin okkar gerir flugvirkjum í raun kleift að skrá sína reynslutíma án þess að þurfa að halda utan um það í sérstökum bókum eða að þurfa að slást við excel-skjal,“ segir Gísli. „Út frá því verður félagið til – svo flugvirkjar og yfirmenn þeirra geti haldið miðlægt utan um reynsluna með það að markmiði að gefa út og halda utan um skírteini.“

Fóru í Startup Reykjavík og Rannís

„Þegar við fórum í Startup Reykjavík var allt rifið í sundur og við bættum við vöruflóruna okkar. Þá vorum við aðallega að einbeita okkur að litlu flugfélögunum hér heima – Atlantsflugi, Erni, Mýflugi – sem eru fremur staðbundin, en stærri hugmyndir okkar unnum við með Bluebird Cargo,“ segir Gísli. „Það var svo fyrir þessi félög sem við byrjuðum að þróa vörur – í skýrslugerð, starfsmannaumgjörðum, skírteinaskrásetningu og námskeiðum.“

Skyhook fékk þriggja ára verkefnastyrk frá Rannsóknarmið- stöð Íslands, Rannís. Styrkinn fékk fyrirtækið við fyrstu umsókn, sem er að sögn Gísla heldur sjaldgæft að gerist yfirhöfuð. Án verkefnisstyrksins hefði Skyhook ekki getað haldið úti starfsemi sinni eða vöruþróun, en núna fer fjármagnið að verða á þrotum. Gísli og kollegar hans leita sér nú að fjárfestum til að fjármagna félagið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.