Mario Draghi, forseti Seðlabanka Evrópu sagði á blaðamannafundi rétt í þessu að evrópski seðlabankinn muni halda skuldabréfakaupum sínum áfram út þetta ár. Bankinn kaupir nú skuldabréf fyrir 60 milljarða evra í hverjum mánuði sem er hluti af magnbundinni íhlutun bankans.

Sagði Draghi einnig að kaupunum verði haldið áfram eins lengi og þörf verður á. Bætti hann því við að ef horfur í efnahagsmálum á evrusvæðinu fari að versna muni bankinn bæta í kaupinn í hverjum mánuði.

Peningastefnunefnd seðlabankans greindi fyrr í dag frá því að stýrivextir á evrusvæðinu yrðu áfram 0%. Sagði Draghi að þrátt fyrir aukinn hagvöxt á evrusvæðinu sé verðbólguþrýstingur ekki nægjanlega mikill til þess að rökstyðja stýrivaxtahækkun.