Heildarskuldir í heiminum hafa slegið nýtt met og mældust 237 þúsund milljarðar dala á fjórða ársfjórðungi ársins 2017 eða sem nemur 23,4 billjörðum króna á gengi dagsins í dag að því er kemur fram á Bloomberg . Einn billjarður er það sem samsvarar milljón milljörðum.

Í fyrra námu heildarskuldir í heiminum 216 þúsund milljörðum dala og hækkunin nemur því 9,7%. Fyrir áratug voru skuldir um 70 þúsund milljörðum lægri en þær voru í lok ársins 2017.

Þegar litið er til þróaðri markaða hafa skuldir heimilanna aldrei verið meiri í Belgíu, Kanada, Frakklandi, Lúxemborg, Noregi, Svíþjóð og Sviss. Í umfjöllun Bloomberg segir að það sé áhyggjuefni í ljósi þess að vextir hafa verið að byrja að hækka á heimsvísu.

Þrátt fyrir hækkunina lækkuðu skuldir í hlutfalli við verga heimsframleiðslu en hlutfallið er nú um 317,8% af heimsframleiðslu.