Eftir hallæri á vormánuðum horfði til örlítið betri vegar fyrir Icelandair og ferðaþjónustuna þegar slakað var á ferðatakmörkunum hingað til lands. Það breyttist snögglega á ný um miðjan þennan mánuð þegar fimm daga sóttkví og tvöföld skimun var tekin upp fyrir ferðalanga. Samhliða því var kynnt minnisblað ráðuneytisins um téðar aðgerðir en það hefur verið gagnrýnt töluvert.

„Ég tel gott að við höfum birt minnisblaðið og að umræðan um það hafi farið af stað. Að því sögðu tel ég að það hafi verið misfarið með úr því,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Til að mynda segir ekki í því að við eigum að grípa til einhverra ákveðinna ráðstafana á landamærum. Þess í stað segir að sú leið sem sé best til þess fallin að draga úr smithættu innanlands verði að vera valin af sérfræðingum í sóttvörnum. Í því er engin afstaða tekin til einfaldrar eða tvöfaldrar skimunar eða hvort við eigum að hafa takmarkalausar komur frá „öruggum ríkjum“.“

Minnisblaðið kveði aftur á móti á um að hagræn rök standi til þess að þeir sem auka áhættuna á smitum hafi af því kostnað. Þó gefi auga leið að ef gripið er til ráðstafana til að draga úr smitum þá falla niður rök fyrir sérstakri gjaldtöku vegna hins sama.

„Við fengum minnisblað frá sóttvarnalækni sem dró fram valkosti varðandi smitvarnir á landamærunum. Hópur ráðuneytisstjóra vann úr því og stillti upp þremur tillögum. Á endanum stóðum við frammi fyrir tveimur kostum, að beita tvöfaldri skimun að meginstefnu eða tvöfaldri skimun auk einfaldrar frá öruggari löndum. Það sem réð úrslitum var þróun í fjölda smitaðra í ríkjum í kring og að sem stendur er erfitt að flokka ríki sem örugg. Það er því reginmisskilningur að ákvörðun hafi verið tekin út frá téðu minnisblaði um hagræna greiningu,“ segir Bjarni.

Margt jákvætt hafi vissulega komið út úr umræðunni sem skapaðist. Nauðsynlegt sé að stjórnvöld séu tilbúin með skýr svör um það við hvaða aðstæður þau séu tilbúin í að bakka aftur í einfalda skimun.

„Á einhverjum tímapunkti þá verðum við að sætta okkur við að við getum ekki alfarið komið í veg fyrir veiruna og finna jafnvægið í því hvenær er rétt að slaka á vörnum á landamærunum. Það er ekki lítið mál að sjá flugumferð falla niður í eitt til þrjú flug á dag. Ísland er land sem reiðir sig á alþjóðleg samskipti, ekki aðeins í ferðaþjónustu heldur í viðskiptum, vöruflutningum, samskiptum við önnur lönd og svo miklu fleira. Við þurfum líka að passa okkur á að brenna ekki allar brýr að baki okkur fyrir ferðaþjónustuna þannig það taki of langan tíma að opna aftur. Hvað allt þetta varðar þá skuldum við svör og eru þau í vinnslu,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .