Skúli Mogensen, fyrrum forstjóri lággjaldaflugfélagsins sáluga Wow air, hefur beint þeirri kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur að Sveini Andra Sveinssyni, öðrum skiptastjóra þrotabús Wow air, verði vikið frá störfum. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Rök Skúla fyrir því að Sveini Andra verði vikið frá störfum byggja á því að hann hafi veitt rangar og villandi upplýsingar um mikilvæg málefni þrotabúsins, í fjölmiðlum sem og á skiptafundum. Með því hafi Sveinn Andri rýrt verulega það traust sem til hans þurfi að ríkja sem skiptastjóra. Máli sínu til stuðnings vísar Skúli til umfjöllunar Fréttablaðsins um kaup Michelle Ballarin á eignum þrotabúsins, en í fréttinni sagði Sveinn Andri að uppsett kaupverð væri þegar greitt. Vísar Skúli einnig til þess að á skiptafundi hefðu skiptastjórar verið spurðir hvort þeir tengdust Ballarin eða forsvarsmönnum hennar. Svöruðu skiptastjórar því neitandi, en síðar hafi komið í ljós að lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson, sem gætir hagsmuna Ballarin á Íslandi, hafi starfsstöð í sama húsi og Sveinn Andri og þeir deili m.a. kaffistofu og fundarherbergi.

Loks byggir Skúli kröfu sína á meintri vanrækslu Sveins Andra við upplýsingagjöf við skiptakostnað og þóknanir, auk þess sem Sveinn Andri hafi tekið sér þóknun af fé þrotabúsins án þess að hafa til þess heimild. Mun krafa Skúla verða tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.