Skúli Mogensen hyggst safna umtalsverðum fjárhæðum, sem ætlaðar eru til að endurreisa Wow air, meðal annars með erlendri hópfjármögnun. Talað er um að hann ætli að safna 670 milljónum króna á þennan hátt, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Segir Fréttablaðið að um að lágmarksfjárhæð sem verði hægt að leggja til verkefnisins verði um 200-250 þúsund krónur. Samkvæmt heimildum blaðsins hafi skiptastjórar þrotabús WOW tekið vel í hugmyndir um að Skúli og þeir lykilstarfsmenn sem taka þátt í endurreisninni taki yfir kröfur um 200 starfsmanna um vangoldin laun og fyrirgeri þar með rétti sínum á þriggja mánaða uppsagnarfresti sem þeir eiga inni hjá hinu fallna WOW air. Slíkt sé samfélagslega ábyrgt og til þess fallið að almennir kröfuhafar eigi meiri möguleika á heimtum úr þrotabúinu. Í staðinn fái Skúli að halda vörumerkinu WOW.

Áður hefur verið greint frá því að Skúli og helstu lykilstarfsmenn WOW air vilji endurvekja rekstur flugfélagsins. Þeir leitiu nú fjármögnunar upp á 4,8 milljarða króna, til þess að koma rekstrinum af stað á nýjan leik.

Að mati heimildarmanna Fréttablaðsins er knappur tímarammi það sem gæti komið í veg fyrir þessar áætlanir Skúla. Vélarnar sem Skúli hyggist taka á leigu muni ekki standa auðar mikið lengur en út vikuna.