Skúli Mogensen, stofnandi Wow air, segir að fall flugfélagins megi rekja að hluta til þess að hann hafi farið fram úr sér „Ég fór að máta félagið við sjálfan mig, frægðina, uppganginn og arðinn, frekar en að vera trúr upphaflegu lággjaldastefnunni eins og Ryanair og Wizzair hafa gert alla tíð,“ er haft eftir Skúla á vef Fréttablaðsins en viðtalið verður að finna í heild sinni í helgarblaði Fréttablaðsins.

Skúli gerir þar upp sögu sína og Wow og erfiðleikana eftir að félagið varð gjaldþrota í mars 2019. „Ég var andlega og líkamlega gjaldþrota,“ segir Skúli.

Í mars síðastliðnum, tveimur árum frá falli Wow, birti hann færslu á Facebook þar sem hann sagði að ástæða fyrir slæmu gengi flugfélagsins undir lokin hafi verið einföld. Wow hafi misst sjónar af lágfargjaldastefnunni og fremur farið að eltast við að máta sig við „legacy“ félög á borð við Icelandair ásamt því að einbeita sér að markaðshlutdeild í stað arðsemi og kostnaðaraðhalds.

Sjá einnig: „Gleymdum okkur í velgengninni“

Skúli hefur undanfarið unnið að uppbyggingu í Hvammsvík en hann hyggst opna þar sjóböð næsta vor. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir rúmum mánuði síðan að þrjátíu lóðir í Hvammsvík sem Skúli setti á sölu hafi selst upp nær samstundis .

Þá opnaði Skúli nýlega hótelið AVC Hotel á Ásbrú í Keflavík. Hótelið er alfarið sjálfstýrt, þ.e. gestir innrita sig sjálfir og fá aðgang að herbergi sínu með lásakóða.