Eins og greint var frá í morgun þá hljóta Benedikt Gíslason og Arion banki Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Þegar Benedikt tók við sem bankastjóri sumarið 2019 voru fyrstu skilaboð hans að bankinn ætlaði ekki að horfa á stærð sem aðalmælikvarða heldur arðsemi. Óhætt er að segja að þetta hafi tekist því á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var arðsemi eiginfjár 15,2%. Til samanburðar var arðsemin 6,5% árið 2020 og 0,6% árið 2019.

Á tveimur árum hefur kostnaðarhlutfall Arion banka lækkað mikið. Það var 54,9% árið 2019 en á fyrstu níu mánuðum 2021 var það 41,9%. Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs nemur 22,1 milljarði króna.

„Við vorum með lélegustu arðsemina af bönkunum en erum nú með þá bestu,“ segir Benedikt. „Þetta er árangur heildarinnar. Okkar starfsfólk leggur sig fram á hverjum degi og við erum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Sameiginlega hefur starfsfólk bankans náð þessum árangri. Þetta hefur tekist með samstilltu átaki, skýrri sýn og trú. Þetta er ekki hægt nema allir trúi því að við séum á réttri vegferð.“

Benedikt segir að vegferðin undanfarin misseri hafi snúið að því að aðlaga viðskiptamódel bankans að mjög breyttu regluverki, þar sem búið sé að hækka eiginfjárkröfur all verulega.

„Það hefur verið skýr vilji eftirlitsaðilans að efnahagsreikningar bankanna verði ekki jafn stórir og þeir voru og að ekki sé tekin eins mikil áhætta með innlánin og tíðkaðist. Innlán eru í eðli sínu skammtímafjármögnun á meðan útlán eru til lengri tíma. Bankar í slíku starfsumhverfi starfa gjarnan meira sem milliliðir, það er að segja þeir miðla fjármagni, og ekki endilega eingöngu með því veita innlánum í útlán, heldur líka með því tengja saman þá sem eiga fjármagn og þá sem vantar fjármagn. Þetta er vegferðin sem við fórum í – að aðlaga viðskiptamódelið að þessu umhverfi.

Það sem hafði gerst var að bankarnir höfðu aukið eiginfjárgrunn sinn mjög mikið, meðal annars vegna uppfærslu á eignum á árunum 2013 til 2015. Slitabúin, sem áttu bankanna, vildu ekki fá greiddan arð á þessum tíma því það þýddi fleiri íslenskar krónur í búin sem bjó til ákveðið vandamál við afléttingu hafta.

Bankarnir fóru því þá leið að nýta þetta nýfengna eigið fé til að stækka hjá sér lánabókina, allir á sama tíma og þar með varð mikil samkeppni á útlánahliðinni. Samspil þessarar miklu samkeppni og þeirrar staðreyndar að eiginfjárbindingin á fyrirtækjalánum hafði meira en þrefaldast á nokkrum árum með innleiðingu nýrra reglna gerði það að verkum að nýju lánin voru ekki sérlega arðbær fyrir bankana, en á móti þá gögnuðust þau auðvitað viðskiptavinunum vel.“

Hundrað stærstu útlánin

Þegar Benedikt settist í stól bankastjóra hafði lánasafn bankans orðið fyrir áföllum. Wow air varð gjaldþrota í lok mars 2019 og lýsti Arion banki 2,4 milljarða króna kröfu í þrotabúið. Um það bil hálfu ári áður, eða haustið 2018, hafði Arion banki tapað um tveimur milljörðum króna á falli Primera Air þar sem gjaldþrot félagsins hafði veruleg fjárhagsleg áhrif á Primera Travel Group, sem rak ferðaskrifstofur í Skandinavíu og á Íslandi. Bankinn tók síðar ferðaskrifstofurnar yfir, þá undir nafni TravelCo.

Auk þessa tapaði Arion banki verulegum fjármunum á kísílmálmverksmiðju United Silicon, sem varð gjaldþrota í janúar 2018. Eftir gjaldþrotið gerði bankinn 9,5 milljarða króna kröfu í þrotabúið. Bankinn tók yfir allar helstu eignir fyrirtækisins og í dag á Stakkberg, dótturfélag Arion banka, verksmiðjuna.

Benedikt segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þetta gekk allt yfir. Segir hann að Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri Arion banka, hafi farið vandlega yfir þessi mál á markaðsdegi bankans í nóvember.

„Ásgeir Reykfjörð sýndi glærur með arðsemi 100 stærstu útlánanna fyrir tveimur árum og arðsemi 100 stærstu útlánanna í dag. Lykilskilaboðin voru þau að 80 af 100 fyrirtækjalánum voru með arðsemi undir 10% fyrir tveimur árum en í dag hefur þetta snúist við, 80 af 100 lánum eru með arðsemi yfir 10%. Með arðsemi er átt við heildartekjur bankans vegna viðskipta, þ.e. bæði er horft til vaxta- og þjónustutekna. Fyrirtækjalánabókin er nánast óbreytt að stærð yfir þetta tímabil en íbúðalánabókin hefur stækkað töluvert, en það tengist öðru eins og vaxtastigi og því að bankarnir voru orðnir samkeppnishæfir við lífeyrissjóðina um íbúðalán.“

Ekki stefnan að vera stærsti bankinn

„Við ákváðum strax að marka þá stefnu að verða ekki stærsti bankinn eða með tiltekna markaðshlutdeild heldur einbeita okkur að því að leiða saman fjármagn og þá sem þurfa það. Við vildum ekki endilega gera þetta í gegnum okkar efnahagsreikning heldur sem milliliður. Sem milliliður hefur okkur oft tekist að fá betri kjör fyrir lántakandann en við hefðum getað boðið vegna þeirrar arðsemiskröfu sem við setjum og með þessu erum við að færa áhættuna annað. Þetta er langstærsta breytingin sem orðið hefur í rekstri bankans.

Samhliða þessu höfum við lagt höfuðáherslu á arðsemi. Það gefur augaleið að ef fyrirtæki eru ekki arðbær þá hefur það skaðleg áhrif. Þau hafa ekki bolmagn til að fjárfesta í sinni starfsemi og þróa sig áfram, sem getur leitt til þess að fjárfestar fara að missa trúna og erfiðara verður að sækja fjármagn til vaxtar. Bankar gera ýmsar kröfur sjálfir þegar þeir veita lán eins og kröfur um eiginfjárhlutfall og arðsemi. Það skýtur skökku við ef þeir sjálfir geta síðan ekki staðist slíkar kröfur.

Breytingarnar sem við gerðum á rekstri bankans og skipuritinu, þ.e. hvernig við færðum til svið og sameinuðum, gekk út á það að setja upp starfsemi sem líkist bandarískum bönkum, sem búa að mörgu leyti við svipað regluverk og íslensku bankarnir – háar eiginfjárkröfur. Efnahagsreikningur banka í Bandaríkjunum er sem dæmi miklu minni sem hlutfall af landsframleiðslu heldur en þekkist í Evrópu. Íslensku bankarnir hafa svolítið líkst evrópsku bönkunum að þessu leyti, þar sem stórt hlutfall af fjármögnun hagkerfisins fór í gegnum efnahagsreikning bankanna í stað þess að fara aðrar leiðir.

Eitt af því sem fékk okkur til að hafa trú á þeirri vegferð sem við lögðum í er að við hliðina á bankakerfinu hefur verið að byggjast upp annar efnahagsreikningur, sem hefur stækkað mjög hratt, en það er efnahagsreikningur lífeyrissjóðanna. Hann þarf auðvitað að ávaxta og í dag er efnahagsreikningur þeirra orðinn stærri en efnahagsreikningur bankakerfisins. Þarna er komið svipað fyrirkomulag og í Bandaríkjunum, þar sem tryggingafélögin og sjóðir þeim tengdum veita fjármagn inn í hagkerfið.

Þessi leið sem við ákváðum að fara hefur reynst mjög farsæl enda er ekki langt síðan Financial Times birti grein þar sem fram kom að þeir bankar í Evrópu sem hefðu aðlagað sitt viðskiptalíkan með þessum hætti hefðu náð bestum árangri á síðustu tveimur árum.“

Nánar er fjallað um málið í ítarlegu viðtali við Benedikt Gíslason í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .