Endurskoðendur, bókhaldarar auk sérfræðinga á sviði skatta- og félagaréttar eru afar ósáttir við niðurstöðu Hæstaréttar í máli International Seafood Holding gegn íslenska ríkinu. Dómurinn feli í sér bæði óvissu fram á við og auk óvissu um hvað skattayfirvöld muni til bragðs taka.

„Við höfðum ekki hugmyndaflug í þetta og fólk var nokkuð öruggt um að þetta væri alls ekkert álitaefni. Það má með sanni segja að vegna dómsins sé komin upp ákveðin óvissa með arðsúthlutunarheimildir,“ segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir, meðeigandi hjá skattaog lögfræðiráðgjöf Deloitte.

Í dómsmálinu nú byggði ISI meðal annars á því að Hæstiréttur hefði ekki sett út á sambærilega framkvæmd í máli frá árinu 2014, þar sem þrotabú Fons krafðist riftunar og endurgreiðslu á arðgreiðslu til hluthafa, en í málinu nú skrifar rétturinn sig frá fyrri dómi þar sem ekki séu hliðstæð álitaefni á ferð.

Sjá einnig: Dómur Hæstaréttar opni Pandórubox

„Við höfum borið dómana saman og teljum þessa stefnubreytingu undarlega. Núna segir Hæstiréttur að ekki sé nóg að líta á óráðstafað eigið fé en dómurinn útlistar ekki frekar hvaða sjóðir teljast frjálsir. Segjum til dæmis að móðurfélag eigi 100 milljónir í frjálsum sjóði og síðan dótturfélag sem skilar 120 milljóna tapi. Móðurfélagið færir hjá sér hlutdeildartap og er þar með komið með neikvætt eigið fé. Þrátt fyrir þá staðreynd er það samt með frjálsan sjóð til úthlutunar samkvæmt þessu,“ segir Guðbjörg.

„Að mínu mati þarf, í ljósi þeirrar stöðu sem er komin upp, að gera breytingu á lögum um einkahluta- og hlutafélög sem leiðbeinir með skýrum hætti hvað telst til frjálsra sjóða. Hingað til hefur verið litið til laga um ársreikninga en það er ekki skýrt lengur hvað sé heimilt að miða við,“ segir Guðbjörg.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .