Í skýrslu sem gefin var út vegna jafnréttisþings er yfirlit um stöðu og þróun málaflokksins á helstu sviðum þjóðfélagsins. Er þetta í fjórða sinn sem skýrslan er gefin út. Skýrsluna í heild sinni má lesa hér . Hún er gefin út á vegum velferðarráðuneytisins.

Til að mynda er farið yfir stöðu kvenna og karla á atvinnumarkaði, þróun launajafnréttis, hlut kynja í stjórnun atvinnulífsins og á vettvangi stjórnmálanna, hlutföll í opinberri stjórnsýslu og ráðum nefndum og stjórnum.

Aukreitis er fjallað um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, og hvort Ísland sé réttilega tilnefnt til efsta sætis í jafnréttisskýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins. Viðskiptablaðið fjallaði um það á dögunum. Ísland vermir efsta sætið með stuðulinn 0,88 þar sem 0 er algjört misrétti og 1 er fullkomið jafnrétti. 140 lönd eru á listanum.

Í skýrslunni segir að þrátt fyrir að mörgum mikilvægum áföngum hafi verið náð sé enn nokkuð í land svo jöfnum áhrifum kvenna og karla verði náð á öllum sviðum í íslensku samfélagi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að konur væru aðeins rétt rúmlega fimmtungur af viðmælendum og þeim sem fjallað er um í fjölmiðlum.