Framboð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir er með minnsta móti en eftirspurnin, drifin áfram af lágu vaxtastigi, er enn þá til staðar. Formaður Félags fasteignasala áætlar að um þrjú til fimm ár geti liðið þar til jafnvægi næst á markaðinn á nýjan leik.

Húsnæðisgröf
Húsnæðisgröf
Sem kunnugt er hafa undanfarnir tuttugu mánuðir verið undarlegir. Óvissan sem fylgdi ferðalagi sóttarinnar var gríðarleg og allsráðandi á vormánuðum síðasta árs. Í um tvo mánuði hrundi íbúðasala og var mjög lítil. Lækkun stýrivaxta, sem náðu sögulegu lágmarki á síðasta ári, skilaði sér í því að lánskjör til neytenda stórbötnuðu og fleiri gátu fjárfest í eignum.

„Það var ekkert að gera þarna í tvo mánuði en eftir það var í raun tvöföld sala í rúmlega hálft ár. Sú eftirspurn er enn þá í gangi, vandamálið er bara að það er ekkert til,“ segir Hannes Steindórsson, fasteignasali hjá Lind og formaður Félags fasteignasala. Markaðurinn sé enn þá fínn en tæplega helmingur íbúða sé seldur á yfirverði. Þá sé um ein af hverjum tíu sem selst vel yfir ásettu verði.

Ólíkt öllu öðru
„Maður hefur lifað og hrærst í þessum heimi í sautján ár og sem stendur þá eru innan við 250 íbúðir í fjölbýli til sölu og minna en 80 einbýlishús. Það eru því margir um hverja eign, sem hefur talsverð áhrif. Að 42% íbúða séu að seljast yfir ásettu verði eru tölur sem við höfum í raun aldrei séð áður,“ segir Hannes.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritnu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .