Íslensk orkumiðlun velti um einum milljarði króna árið 2018 og jókst velta félagsins um 482% frá fyrra ári, en þess ber þó að geta að árið 2018 var fyrsta heila rekstrarár fyrirtækisins. Þá nam hagnaður félagsins 36 milljónum króna. Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar, kveðst ánægður með afkomu fyrsta heila starfsárs fyrirtækisins.

„Við hófum eiginlegan rekstur í júlí 2017 en undirbúningur við að koma rekstrinum í gang hófst í febrúar sama ár. Það kom mér aðeins á óvart hvað við vorum fljót að ná okkur upp í núllrekstur. Á fyrsta heila starfsári fyrirtækisins settum við okkur það markmið að ná eins milljarðs króna veltu og náðum við því markmiði. Þetta var djörf áætlun og að ná þessari ágætu afkomu var hið besta mál.

Það tók okkur smá tíma að læra inn á markaðinn og ég gæti eflaust tínt til nokkra hluti sem maður hefði eftir á að hyggja viljað gera öðruvísi á þessu fyrsta rekstrarári. En almennt séð gekk það í takt við væntingar og líkt og við höfðum gert ráð fyrir þá náðum við tæplega 50 milljóna króna hagnaði fyrir skatt. Þessi markaður er þó mjög kvikur, sem er stór áskorun í rekstrinum. Einn heildsali, sem sagt Landsvirkjun, getur einn daginn tekið ákvörðun um að hækka eða lækka verð, sem hefur svo eðli málsins samkvæmt áhrif á afkomu okkar fyrirtækis sem og annarra smásala. Þessar breytingar geta verið örar og ófyrirsjánlegar. Til dæmis  í desember í fyrra þá hækkaði Landsvirkjun heildsöluverð á skammtímamarkaði um 20%, en slík hækkun hefur auðvitað áhrif á öll fyrirtækin í raforkugeiranum, enda eru þau öll háð Landsvirkjun."

Magnús reiknar með áframhaldandi tekjuvexti á þessu ári. „Ég á von á ágætis vexti, bæði í tekjum og hagnaði. Þetta ár verður talsvert stærra en árið í fyrra og erum við að auka umsvif okkar á raforkumarkaði á milli ára. Það á enn eftir að koma endanlega í ljós hversu mikið umsvif okkar munu aukast en það er í kortunum að aukningin sé talsverð."

Smærri yfirbygging

Þegar rýnt er í fyrirtæki sem starfa innan raforkumarkaðarins má sjá að yfirbygging Íslenskrar orkumiðlunar er talsvert smærri en hjá flestum öðrum samkeppnisaðilum. Til að mynda voru ársverk fyrirtækisins árið 2018 aðeins tvö. Magnús segir að þessi smáa yfirbygging geri fyrirtækinu kleift að bjóða viðskiptavinum sínum upp á hagstætt verð.

„Í upphafi var ég eini starfsmaður fyrirtækisins en núna í dag starfa þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu, en lengst af vorum við tveir. Það að samkeppnisaðilar séu með fleira starfsfólk og meiri yfirbyggingu getur stafað af ýmsu. Í fyrsta lagi eru þau flest samhliða að sinna framleiðslu raforku, sem krefst að sjálfsögðu aukins vinnuafls. Ég geri einnig ráð fyrir því að vegna fákeppni í gegnum tíðina hafi einhver af fyrirtækjunum ekki verið rekin á hagkvæmustu einingunum. Ég held að það sé klárlega hægt að reka sum fyrirtækin á hagkvæmari hátt að einhverju leyti, t.d. með minni yfirbyggingu."

Herjuðu á fyrirtækin í byrjun

Magnús segir að í byrjun rekstursins hafi Íslensk orkumiðlun lagt áherslu á að landa stórum og meðalstórum fyrirtækjum sem viðskiptavinum og ná þannig upp stöðugum tekjum. Þessa dagana sé fyrirtækið svo byrjað að einblína meira á heimilin.

„Við settum okkur það markmið alveg frá byrjun að koma upp viðskiptavinabasa af stórum notendum, þá á ég ekki við stóriðjunotendur heldur stóra almenna notendur, til þess að ná upp ákveðnum hagkvæmnigrunni. Við einblíndum því á stór og meðalstór fyrirtæki í byrjun en núna erum við að hefja innreið inn á heimilismarkaðinn. Við vildum byrja á að búa til nógu stóra stærð sem tryggir okkur örugga veltu og örugga greiðendur. Ég tel að það hafi verið rétt nálgun hjá okkur að einblína fyrst á fyrirtækin og síðan heimilin."

Eftirbátar hinna Norðurlandanna

Líkt og áður segir hóf Íslensk orkumiðlun starfsemi sína árið 2017 og varð félagið þá fyrsti einkaaðilinn til að fá leyfi Orkustofnunar til þess að stunda raforkuviðskipti, eftir að samkeppni á vissum hliðum raforkumarkaðarins var komið á með lagasetningu árið 2003.

„Það má í raun segja að íslenski raforkumarkaðurinn sé skilgreindur samkeppnismarkaður í lögum en hið opinbera er þrátt fyrir það með rúmlega 90% hlutdeild á markaðnum. Við erum einn af fáum einkaaðilum sem hafa komið inn á raforkumarkaðinn eftir að samkeppnin var bundin í lög."

Magnús segir að þrátt fyrir að tæplega tveir áratugir séu síðan samkeppni var innleidd á smásöluhluta raforkumarkaðarins, sé samkeppnin á markaðnum og virkni hans enn vanþróuð.

„Mín skoðun er sú að það sé almennt þannig að á samkeppnismarkaði séu einkaaðilar betur til þess fallnir að koma fram með hugmyndir og láta þær verða að veruleika, finna samlegð í vöruflokkum og þróa markaðinn þannig áfram. Það hefur afskaplega lítið gerst á þessum markaði síðan árið 2003, þrátt fyrir lagabreytinguna. Virkni markaðarins í kringum vöruna rafmagn hér á landi vermir botnsætið í samanburði við virkni markaða á hinum Norðurlöndunum. Það eru tækifæri til staðar til að gera vöruna rafmagn að hefðbundinni markaðsvöru eins og hvað annað. Þó að íslenski raforkumarkaðurinn sé smár í alþjóðlegum samanburði, þýðir það ekki að það þurfi að vera lítil hreyfing á markaðnum. Þarna liggja því tækifæri og ég tel að einkaaðilar muni í náinni framtíð spila stærra hlutverk en þeir hafa gert hingað til á þessum almenna smásölumarkaði fyrir rafmagn."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .