Að útrýma Covid-19 er ódýrasta leiðin að efnahagsbata,“ segir í grein fjögurra franskra hagfræðinga á vefsvæðinu Voxeu . Í greininni segja gagnrýna þeir sóttvarnaraðgerðir í Evrópu, sem feli í sér að bregðast við eftir að ný bylgja fer að gera vart við sig í stað þess að stefna að smitleysi. Þau ríki sem gripið hafi til hörðustu aðgerðanna strax í upphafi og einsett sér að útrýma veirunni hafi einnig staðið sig best efnahagslega.

Þar benda þeir meðal annars á Ísland en einnig ríki á boð við Kína, Ástralíu, Kambódíu, Nýja-Sjáland, Víetnam, Japan, Kóreu, Laos og Taíland.

Stefna Evrópuríkjanna í nafni aukins einstaklingsfrelsis, með hag efnahagslífsins í huga hafi reynst koma í meira mæli niður á frelsi fólks, reynst verri fyrir heilbrigði þjóða og valdið meiri tjóni á hagkerfum landanna.

Að skipta á milli þess að opna efnahagslífið og þurfa svo að skella öllu í lás til að ná niður næstu bylgju hafi dregið úr hagvexti til langs tíma þar sem fyrirtæki eigi erfiðara með að skipuleggja sig. Í stað þess að fjárfesta í nýsköpun sitji þau á lausafé til að eiga fyrir næstu lokunarbylgju.

Ljóst sé að stefnan um að útrýma veirunni með bóluefni hafi gengið mun hægar en vonir stóðu til og treysta þurfi á fleiri ráð.

Þá segja hagfræðingarnir að rannsóknir bendi til þess að landsframleiðsla í ríkjum sem hafi einsett sér að útrýma veirunni alfarið hafi jafnað sig mun hraðar á faraldrinum. Rannsóknir bendi til þess að 10% prósentustiga sveifla verði í landsframleiðslu sem hafi sett stefnuna á að útrýma veirunni miðað Evrópuríkin sem illa hefur gengið að ná niður fjölda smita.

Þó mæla prófessoranir með því að heimila ferðafrelsi á milli ríkja þar sem nær engin smit séu til staðar, enda hafi ferðaþjónusta verið sú grein sem orðið hafi fyrir hvað þyngstu höggi.

Breytingar á landamærum ógni „90% hagkerfinu“

Greinin kallast nokkuð á við efnahagsumræðuna hér á landi síðustu daga. Gylfi Zöega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd, sagði í Kastljósinu í gær, að verið væri að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að ætla að gera breytingar á sóttvarnarráðstöfunum á landamærunum þann 1. maí. Hann gagnrýndi þar hugmyndir stjórnvalda um litakóðunarkerfi þar sem reglur um skimanir og sóttkví ferðamanna munu byggt á stöðu faraldursins í því landi sem flogið er frá til Íslands.

Gylfi sagði að vernda þyrfti það sem hann kallaði 90% hagkerfið, það er þá sem ekki starfi innan ferðaþjónustunnar. „Ég hef alltaf sagt, verndum 90 prósent hagkerfið því það er svo hrikalegur skaði sem verður af því að hér sé farsótt innanlands, efnahagslegur skaði af henni er miklu meiri. Við björgum ekki 10 prósent hagkerfinu með því að hleypa pestinni inn í landið. Það er bara einhver hilling,“ sagði Gylfi. Á sama tíma væri eðlilegt að greiða þeim sem séu innan ferðaþjónustunnar bætur þar sem greinin ætti ekki ein að bera tjónið af faraldrinum.

Formaður SAF gagnrýnir Gylfa og Ölmu

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, svaraði umræðunni í Kastljósþættinum með Gylfa sem og með Ölmu Möller landlækni kvöldinu áður í færslu á Facebook í dag og sakaði þau um upplýsingaóreiðu. Á meðan smitbylgja geysi erlendis verði engar breytingar gerðar á sóttvarnarráðstöfunum eftir 1. maí þar sem nýju reglurnar taki mið af stöðu faraldursins í hverju landi. Verði enn fjöldi smita í Evrópu eftir 1. maí þurfi þeir sem hingað koma áfram að fara í tvöfalda skimun og sóttkví.

„Mikið væri það gott og jákvætt ef embættismenn og álitsgjafar almennt settu sig betur inn í núverandi sóttvarnarráðstafanir á landamærum og fyrirhugaðar breytingar á þeim. Hættu líka blanda saman litakóðunarkerfinu og þeim reglum sem gilda fyrir bólusetta og þá sem eru með mótefni gegn kórónuveirunni. Það væri líka frábært ef fólk hætti að tala um það að landið "verði opnað upp á gátt" með gildistöku litakóðunarkerfisins þann 1. maí n.k og því að bera saman sóttvarnaraðgerðir á landamærum síðasta sumar við þær sem eru fyrirhugaðar með gildistöku litakóðunarkerfisins,“ segir Bjarnheiður.

„Stóri misskilningurinn er að halda því fram að litakóðunarkerfið þýði opnun landamæra. Ekkert er fjær lagi. Áfram munu gilda strangar sóttvarnaraðgerðir, þrátt fyrir það að við verðum í maí langt komin með að bólusetja okkar viðkvæmustu hópa. Tvöföld skimun verður áfram við lýði fyrir alla og aðgerðir fyrir gesti frá löndum með háa smittíðni verða óbreyttar. Yrði litakóðunarkerfið tekið upp á morgun, myndi lítið breytast á landamærunum. Hafi upplýsingaóreiða einhvern tímann verið áberandi í kórónuveirufaraldrinum, þá er það núna,“ bætir hún við.

Í tilefni af Kastljóssþáttum í gær og í kvöld: Mikið væri það gott og jákvætt ef embættismenn og álitsgjafar almennt...

Posted by Bjarnheiður Hallsdóttir on Tuesday, 30 March 2021