Frumkvöðullinn Guðmundur Rúnar Pétursson er að hefja rekstur á Íslandi eftir að hafa stofnað og rekið fyrirtæki í Bandaríkjunum og á Filippseyjum í á annan áratug.

Rúnar stofnaði fjártæknifyrirtækið Coins.ph á Filippseyjum árið 2014 með viðskiptafélaga sínum Ron Hose. Þeir áttu enn ráðandi hlut í félaginu þegar það var selt árið 2019 til indónesíska tæknirisans Gojek á tæplega 80 milljónir dollara, um tíu milljarða íslenskra króna. Áður stofnaði hann félagið World Financial Desk í Bandaríkjunum með fleiri Íslendingum sem sérhæfði sig í hátíðniviðskiptum.

Stofnar félag á Íslandi og kaupir bóndabæ

Nú hyggst Rúnar, sem enn er búsettur í Manila, höfuðborg Filippseyja, verja meiri tíma á Íslandi. Í síðustu viku stofnaði hann nýtt íslenskt fjártæknifyrirtæki, Zero Two ehf. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Rúnar að félagið muni starfa á þeim sviðum sem hann hefur helst einbeitt sér að undanfarin ár – hátíðniviðskiptum og lausnum tengdum viðskiptum með rafmyntir. „Við erum rétt að byrja en markmiðið er að byggja upp áhugaverðar fjártæknilausnir. Vonandi höfum við skapað eitthvað spennandi eftir ár eða svo,“ segir Rúnar.

Þá festi Rúnar kaup á bænum Hlíðarendakoti í Fljótshlíð á síðasta ári. Bærinn er Íslendingum einna helst kunnugt vegna samnefnds kvæðis eftir skáldið Þorstein Erlingsson, sem ólst þar upp, og hefst á orðunum „Fyrr var oft í koti kátt“.

Fleiri með Facebook reikning en bankareikning

Rúnar og Ron Hose, meðstofnandi hans, kynntust árið 2013 í Manila. „Ég og Ron komumst báðir að þeirri niðurstöðu um svipað leyti að staða Filippseyja væri einstök í Asíu hvað varðar tækifæri frumkvöðla frá Vesturlöndum. Ríkið er fjölmennt, nær allir tala ensku og sprotaumhverfið er þróað og opið fyrir utanaðkomandi aðilum. Við vissum ekki alveg hvernig fyrirtæki við vildum stofna en eftir að hafa kastað á milli okkar nokkrum hugmyndum ákváðum við að lokum að leggja áherslu á Bitcoin og síðar greiðslumiðlun,“ segir Rúnar, sem starfaði sem yfirmaður tæknimála fyrirtækisins út árið 2017 en Hose var forstjóri þess.

Rúnar hreifst snemma af Bitcoin og hóf viðskipti með rafmyntina árið 2011, tveimur árum eftir að henni var komið á fót. Hann segir að upphaflega hugmyndin hafi verið að veita almenning aðgang að Bitcoin. Hugmyndin þróaðist þó fljótlega yfir í að bjóða upp á greiðslumiðlun með Bitcoin. Þannig hafi þeim fjölda fólks sem starfi utan Filippseyja verið auðveldað að senda fé heim til ættingja og vina með því að nýta sér Bitcoin í gegnum Coins.ph. Með því spöruðu þeir notendum háar þóknanir fjármálafyrirtækja og mikið flækjustig. Hose hefur bent á í viðtölum að fleiri Filippseyingar hafi þá verið með Facebook reikning en bankareikning. Bankakerfið hafi ekki sinnt nema um 20% þjóðarinnar.

Keypti Hlíðarendakot fyrir syni sína

Rúnar segist stefna á að dvelja á Íslandi á sumrin næstu árin. Síðustu ár hafi mjög mótast af því að hann eignaðist þríburadrengi árið 2019 og sé nú einstæður faðir. „Ég hef verið pabbi í fullu starfi síðan þá.“ Kaupin á Hlíðarendakoti séu liður í því að styrkja tengingu hans og þríburanna við Ísland. „Afi var að kenna í Fljótshlíðinni þegar pabbi fæddist og þeir bjuggu í gömlu skólabyggingunni sem er skammt frá,“ segir hann. „Þegar strákarnir mínir fæddust vildi ég að þeir hefðu ekki bara sterka tengingu við Ísland heldur ákveðinn samastað á Íslandi,“ segir Rúnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .