Kínverska einkakennslufyrirtækið New Oriental hefur rekið 60 þúsund starfsmenn frá því að stjórnvöld í Beijing bönnuðu einkareknum menntafyrirtæki að skila hagnaði en umræddur markaður var metinn áður á 100 milljarða dala á ári. Financial Times greinir frá.

Yu Minhong, stofnandi og stjórnarformaður New Oriental, segir að 60% af starfsfólkinu hafi verið sagt upp í kjölfar bannsins og að fyrirtækið hafi rétt náð að lifa af með dugnaði starfsmanna.

Kínversk stjórnvöld innleiddu í sumar bann á hagnaðardrifna einkakennslu sem hluti af átaki til að draga úr kostnaði við uppeldi og til að styðja við barnseignatíðni í landinu.

Sjá einnig: Fyrrum kennari tapaði 15 milljörðum

Fyrir bannið voru 5 milljónir krakka skráðir í námskeið hjá New Oriental. Síðan þá hafa tekjur fyrirtækisins fallið um 80% og markaðsvirði fyrirtækisins, sem er skráð í New York kauphöllina, lækkað um 90%.

„Á árinu 2019 varð New Oriental fyrir óláni frá of mörgum þáttum á borð við stefnu stjórnvalda, faraldrinum og alþjóðatengslum,“ er haft eftir Yu.

Til að bregðast við breyttu regluverki brást fyrirtækið við með því að bjóða upp á nýja tekjuliði líkt og sumarbúðir, dansnámskeið og kennslu í myndmennt ásamt því að koma á fót tungumálanámskeiðum í kínversku fyrir útlendinga.

Þá birtu stjórnvöld í Kína nýjar leiðbeiningar fyrir óhagnaðardrifnar menntastofnanir þar sem kveðið er á um að verð á einkakennslu fyrir kjarnafög skuli vera 20 yuan eða 400 krónur á klukkutíma.

FT hefur eftir ónefndum föður fjórtán ára drengs í Sjanghæ að það muni reynast mjög erfitt að fá góða kennslu á þessum verði. Hann segir jafnframt að margir foreldrar hafi brugðist við með að kaupa einakennslu í gegnum netið af erlendum keppinautum New Oriental. „Það er ekki mikið sem stjórnvöld geta gert, það eina sem þú þarft er VPN tenging.“