Á aðalfundi Solid Clouds í síðastliðinni viku var kosinn ný stjórn en í henni sitja Sigurður Arnljótsson, fjárfestingastjóri Brunns vaxtarsjóðs. Aðrir kosnir í stjórn voru Ólafur Andri Ragnarsson, kennari við tölvunarfræðideild HR og einn af stofnendum Betware, Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, Tómas Sigurðsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, Svanhvít Friðriksdóttir sem situr í framkvæmdastjórn WOW air og er samskiptastjóri flugfélagsins, Jón Þorgrímur Stefánsson, framkvæmdastjóri GreenQloud og Aðalsteinn Haukur Sverrisson framkvæmdastjóri RECON. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Solid Clouds er að framleiða tölvuleikinn Starborne sem er sá stærsti sem hefur verið framleiddur hér á landi síðan Eve Online var gerður á sínum tíma. Starborne er þrívíður herkænskuleikur í geimnum sem er spilaður í rauntíma af þúsundum spilara á risastóru stöðukorti gegnum tölvu og snjalltæki. Markaðurinn fyrir þessa gerð leikja hefur vaxið hratt á undanförnum árum og veltir um milljarði bandaríkjadala árlega. Solid Clouds hefur einsett sér að umbylta þessum markaði með því að gera spilurum í fyrsta skipti kleift að spila á risastóru stöðukorti með svipað viðmót og Google Earth. Nokkrir af upphaflegum hönnuðum EVE Online og fjárfestum úr CCP koma að verkinu.

„Ég er gríðarlega ánægður að fá þessa reynslumiklu einstaklinga í stjórn sem allir eru með ólíkan bakgrunn. Í október verður okkar langstærsti prófunarfasi til þessa en þá verður allt að fimm þúsundum spilurum alls staðar að úr heiminum boðið að prófa leikinn en hann verður gefinn út á næsta ári“ segir Stefán Gunnarsson framkvæmdastjóri Solid Clouds.