Vigfús G. Gíslason framkvæmdastjóri Flügger lita þakkar sólartíð síðustu vikna allt að 60 til 70% söluaukningu á útivörum félagsins það sem af er ári að því er Morgunblaðið segir frá, en þær samsvara tæplega helmingi veltu fyrirtækisins.

Frá maí árið 2017 til maí 2018 nam heildarvelta Flügger tæplega 1,2 milljörðum króna, en rekstrarhagnaður félagsins af veltunni á tímabilinu nam tæplega 140 milljónum króna.

Sama má segja um söluaukningu í tjöldum hjá Ellingsen, sem líkt og í málningunni má eflaust rekja til góðviðursins, en Arnór Gíslason rekstrarstjóri félagsins segir birgðastöðu búðarinnar í dag vera svipaða og þegar komið var inn í júlí í fyrra, en nú er búið að selja meira af útileguvörum í júní en allan mánuðinn í fyrra.

„Það hefur gengið frábærlega hjá okkur á þessum tíma og hefur einstakt veðurfar á suðvesturhorninu þar mikið að segja.[...] Sumarið í fyrra var auðvitað ekki gott veðurfarslega,“ segir Vigfús í Flügger enda veltir á útimálningu og öðrum útivörum félagsins mikið á veðrinu, og því gæti skýringin að hluta til verið uppsafnaður vandi.

„Þetta var auðvitað með miklum ólíkindum. Málarar sem ætluðu sér að klára verk í maí voru fyrst að komast í þau í ágúst. Þetta gerði það að verkum að afköst málara voru minni sem þýðir minni sala hjá málningarfyrirtækjum. Ég áætla að við séum búin að selja jafnmikið núna og við vorum búin að gera um verslunarmannahelgina í fyrra.“

Arnór í Ellingsen segir söluna á tjöldum hafa tekið gríðarlegan kipp að undanförnu, sem líkt og í málningunni má eflaust rekja til góðs veðurs, en einnig virðist mega rekja aukninguna til þess að nú stefnir í að hægja muni á hagkerfinu, sem og líklega minna framboðs af flugi til og frá landinu.

„Undanfarin ár höfum við selt ágætlega til erlendra ferðamanna og til Íslendinga í bland, en aldrei nokkurn tímann í þessum mæli,“ segir Arnór, sem segir söluna nú í raun áþekka við miðjan júlí þegar verslunarmannahelgin nálgast á venjulegu ári.

„Við erum að fá einhvern allt annan markhóp inn í tjöldin. Sem eru bara Íslendingarnir.[...]. Við erum nokkuð viss um að fram undan sé eitt stærsta útilegusumar Ellingsen í langan tíma. Við sáum þetta síðast sumrin eftir hrun, árin 2009 og 2010. Þá virtust Íslendingar líka ætla að ferðast innanlands.“